Flugvirkjanám er starfstengt nám á framhaldsskólastigi. Meginmarkmið námsins er að nemendur öðlist færni og þekkingu til viðhalds á loftförum. Meðal annars er farið í rafmagnsfræði, eðlisfræði og flugfræði ásamt tækni, tækjum og aðferðum til viðhalds loftfara.

Meðalnámstími grunnnámsins er eitt og hálft til tvö og hálft ár eftir skólum.

Kröfur

Umsækjendur þurfa að hafa lokið skyldunámi í samræmi við Aðalnámskrá grunnskóla, vera orðnir 18 ára og hafa hreint sakavottorð. Gerðar eru kröfur um ákveðna kunnáttu í ensku, jafnvel stærðfræði og eðlisfræði en sjá má nánar um inntökuskilyrði hjá skólunum sjálfum.

Námið hefur verið lánshæft hjá Menntasjóði námsmanna. Fag- og stéttarfélög veita oft styrki til náms. Fáðu frekari upplýsingar hjá þínu félagi.

Námsskipulag

Flugvirkjun skiptist í bóklegt og verklegt nám. Eftir grunnnámið geta nemendur farið í starfsnám hjá viðurkenndum aðila sem flugvirkjanemar.

Athugaðu hvort námið eða hluti þess geti verið kennt í fjarnámi.

Kennsla

Flugvirkjanám hefur verið kennt við Tækniskólann - skóla atvinnulífsins.

Að loknu námi

Bóklegt og verklegt nám veitir rétt til starfsnáms og geta nemendur að því loknu tekið sveinspróf sem veitir þeim réttindi til viðhalds flugvélum, útbúnum túrbínum. Einnig geta nemendur haldið áfram námi í tæknifræði.

Ekki þinn tebolli?

Skoðaðu aðra valmöguleika