Námskeið og námsleiðir í íslensku eru með ýmsum hætti en á vef Fjölmenningardeildar Vinnumálastofnunar er að finna gott yfirlit almennra íslenskunámskeiða fyrir fólk sem flyst til landsins, til lengri eða skemmri tíma. Þannig bjóða bæði símenntunarstöðvar víðsvegar um land sem og einkaaðilar námskeið, ýmist staðbundin eða á netinu, sem yfirleitt eru getuskipt eða beint að ákveðnum hópum.
Námsleiðir á framhaldsskólastigi, ætlaðar nemendum með annað móðurmál, eru ekki einungis hugsaðar sem þjálfun í íslensku, heldur einnig til að stuðla að félagslegri vellíðan nemenda þar sem tungumálið er nýtt sem lykill að íslensku samfélagi, skólastarfi og þátttöku í atvinnulífi.
Einnig er íslenska sem annað mál í boði sem námsleið á háskólastigi fyrir þau sem vilja öðlast fræðilega og/eða hagnýta þekkingu á íslensku. Þar er um að ræða tvær námsleiðir, annars vegar fræðilegt BA - nám þar sem þreyta þarf inntökupróf en hins vegar hagnýtt diplómanám.
Kröfur
Almenn íslenskunámskeið fyrir fólk af erlendum uppruna eru alla jafna opin öllum.
Til að innritast á íslenskubrautir framhaldsskóla þarf að hafa annað móðurmál en íslensku eða hafa alist upp erlendis. Oft er forgangsraðað eftir aldri en alla jafna eru nemendur á aldrinum 16 – 20 ára.
Á háskólastigi þarf að hafa próf sem samsvarar íslensku stúdentsprófi auk þess að standast lágmarkskröfur á rafrænu prófi.
Fræðslusjóðir stéttarfélaga veita oft styrki til náms. Fáðu frekari upplýsingar hjá þínu félagi.
Námsskipulag
Námskeið símenntunarstöðva byggja á námskrám á hæfniþrepum 1 til 2 samhliða Evrópska tungumálarammanum á erfiðleikastigi frá A1 til A2.
Íslenskubrautir framhaldsskóla eru samkvæmt námskrá alls 115 einingar, náminu oftast skipt á fjórar annir með áherslu á íslenskukennslu á 1. og 2. þrepi en einnig getur verið um áfanga á 3. þrepi að ræða, fyrir nemendur sem stunda annað nám samhliða.
Á háskólastigi er íslenska sem annað mál í boði sem aðalgrein til BA – prófs eða sem aukagrein í eitt ár. Kennsla fer fram í fyrirlestrum, smærri hópum og umræðutímum.
Kennsla
Upplýsingar um námskeið og námsleiðir í íslensku fyrir útlendinga er að finna á heimasíðum símenntunarmiðstöðva sem og á vef Fjölmenningardeildar Vinnumálastofnunar.
Sérstakar námsbrautir hafa verið í boði við eftirtalda framhaldsskóla en einnig bjóða margir skólar upp á einstaka áfanga (ÍSAT), móttökuáætlanir og stuðning við nemendur með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn.
Fjölbrautaskólinn í Breiðholti
Fjölbrautaskóli Suðurnesja
Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ
Tækniskólinn
Kvennaskólinn
Verkmenntaskólinn á Akureyri
Íslenska sem annað mál er námsleið til BA – gráðu við Háskóla Íslands en þar er einnig í boði hagnýtt diplómunám, fyrir þau sem vilja auka færni í íslensku til að geta tekist á við nám eða störf í íslensku samfélagi.
Þá er á háskólastigi boðið upp á námskeið fyrir byrjendur sem kallast Íslenskugrunnur (Icelandic – the basics) og Íslensk menning (Icelandic Culture), ætluð skiptinemum og nemendum í öðru námi.
Að loknu námi
Nám í íslensku sem öðru máli eykur möguleika á virkri þátttöku í íslensku samfélagi, frekara námi á framhalds- eða háskólastigi og til að bæta íslenskukunnáttu þannig að hún nýtist á vinnumarkaði.
Tengt nám