Íþróttafræði/Íþrótta- og heilsufræði er grunnnám á háskólastigi. Megininntak námsins er að auka þekkingu sem tengist íþróttaiðkun og líkams- og heilsueflingu í kennslu og þjálfun fyrir alla aldurshópa. Í náminu er meðal annars farið í líffæra- og lífeðlisfræði, þjálfunarlífeðlisfræði, líkams-, heilsuræktar- og íþróttaþjálfun, kennslufræði, sálfræði, hreyfingar-og næringarfræði.

Náminu lýkur með BS/BSc prófi. Námstími er þrjú ár.

Kröfur

Inntökuskilyrði eru stúdentspróf eða sambærileg menntun.
Þeir sem sækja um íþróttafræði við Háskólann í Reykjavík eru boðaðir í inntökupróf sem fram fer í júní hvert ár. Umsækjendur eru jafnframt hvattir til að gera grein fyrir starfsreynslu, annarri menntun, þátttöku í félagsstörfum og álíka sem getur verið umsókn þeirra til framdráttar. 
Námið er lánshæft til framfærslu og skólagjalda hjá Menntasjóði námsmanna. Fag- og stéttarfélög veita oft styrki til náms. Fáðu frekari upplýsingar hjá þínu félagi.

Námsskipulag

Námið er fræðilegt og starfstengt. Í boði eru skyldu- og valnámskeið sem fara fram í staðnámi.
Íþrótta-og heilsufræði (BS) er kennd við Háskóla Íslands. Þar eru einnig í boði námsleiðir til meistaragráðu.
Íþróttafræði (BSc) er kennd við Háskólann í Reykjavík auk möguleika á áframhaldandi námi til meistaragráðu. Einnig er í boði diplomanám í styrk og þrekþjálfun.

Kennsla

Íþrótta- og heilsufræði til BS-gráðu er í boði við Háskóla Íslands og einnig tvær meistaranámsleiðir. Í Háskólanum í Reykjavík er námsleið til BSc-gráðu auk meistaranáms og diplómu í styrk og þrekþjálfun.

Að loknu námi

Að loknu grunnnámi er hægt að starfa sem íþróttafræðingur. Eins veitir námið rétt til að sækja um framhaldsnám hvort heldur er til að öðlast leyfisveitingu til kennslu eða rannsóknartengt.

Ekki þinn tebolli?

Skoðaðu aðra valmöguleika