Skapandi sjálfbærni námið veitir tækifæri, andrými og aðstöðu til að rannsaka og rækta eigin sköpunargáfu, styrkleika og verklega færni. Hallormsstaðaskóli býður upp á námsumhverfi þar sem menningararfur, skapandi sjálfbærniþekking og hefðbundið handverk fyrri kynslóða er skoðuð í nýju ljósi og tengd saman við nýja tækni, vísindalega þekkingu og hugmyndafræðilegar áherslur samtímans.

Markmiðið er að útskrifa lausnamiðaða og skapandi nemendur sem mæta áskorunum framtíðarinnar með nýsköpun og sjálfbærni að leiðarljósi. Nemendur öðlast haldgóða þekkingu og færni í að vinna þvert á fræði og faggreinar.

Kröfur

Nemendur þurfa að hafa náð 18 ára aldri og lokið stúdentsprófi, iðnprófi eða sambærilegu námi á 3. hæfniþrepi til að geta innritast á 4. hæfniþrep en slíkt nám flokkast sem viðbótarnám við framhaldsskóla og er samsvarandi fyrsta hæfniþrepi við háskóla - diplomunámi á háskólastigi. 

Námsskipulag

Heilsárs 60 eininga nám sem samanstendur af fjölbreyttum vinnustofum (30 einingar), hugtakavinnu (10 einingar), stöðumati (10 einingar) og lokaverkefni (10 einingar). Námið er rannsóknarmiðað og sveigjanlegt, nemendur taka virkan þátt í mótun þess og eru hvattir til frumkvæðis og tilraunastarfsemi. Vinnustofur byggja á verklegu námi undir leiðsögn sérfræðinga og fagfólks og sjálfstæðri verkefnavinnu nemenda.

Í hugtakavinnu eru viðfangsefnin sett í stærra samhengi og unnið með fræðilegar undirstöður. Hugmyndafræði sjálfbærni er undirbyggð í fræðilegu og sögulegu samhengi.

Stöðumat byggir á samtali milli nemenda, fagstjóra og gesta sem tvinnar saman fræði og framkvæmd. Lokaverkefni er hugmyndavinna og afurð nemenda sem byggir á sjálfstæðri rannsóknar- og þróunarvinnu undir handleiðslu leiðbeinanda.
 

Kennsla

Námsbraut í Sjálfbærni og sköpun er í boði við Hallormsstaðaskóla.

Kennsla fer að mestu leyti fram í verklegum vinnustofum sem studdar eru með bóklegu námi. Nemendur læra um ábyrga nýtingu auðlinda, efla hráefnis- og vistkerfisvitund sína og fá forskot til að tækla áskoranir framtíðarinnar með nýsköpun og sjálfbærni að leiðarljósi. Nemendur fá tækifæri, andrými og aðstöðu til að rannsaka og rækta eigin sköpunargáfu, styrkleika og verklega færni.

Að loknu námi

Nemendur geta hagnýtt námið með ýmsum hætti, til að mynda sem frumkvöðlar í samfélagslegri nýsköpun, sjálfbærri framleiðslu á vöru eða þjónustu fyrir markað.

Ekki þinn tebolli?

Skoðaðu aðra valmöguleika