Framhaldsskólar eru þriðja skólastigið og nám þar skipulagt sem beint framhald af grunnskólanáminu. Eins og á fyrri skólastigum er hlutverk námsins margþætt; „stuðla að alhliða þroska“, „virkja þátttöku í lýðræðisþjóðfélagi“ og ekki síst „búa nemendur undir þátttöku í atvinnulífinu og frekara nám.“
Framhaldsnám
Hugmyndin er sú að framhaldsskólar geti boðið hverjum og einum nemanda nám við hæfi og er námsframboðið því afar fjölbreytt en ætla má að um eða yfir 100 mismunandi námsleiðir séu í boði á framhaldsskólastigi; almennt nám, listnám, bóknám og starfsnám.
Í framhaldsskólum eru því kenndar bæði verklegar og bóklegar greinar. Þær verklegu miða flestar að því að undirbúa nemendur undir tiltekið starf og veita starfsréttindi á meðan námsbrautir með áherslu á bóknám eru fræðilegri og búa nemendur undir háskólanám.
Þrátt fyrir að námið sé fjölbreytt og skólarnir ólíkir (fjölbrautaskólar, iðnskólar, menntaskólar og verkmenntaskólar) er ákveðinn kjarni sameiginlegur flestum námsbrautum hvort sem ætlunin er að stefna að framhaldsskólaprófi, prófi til starfsréttinda eða stúdentsprófi.
Ólíkt grunnskólanum er nám í framhaldsskóla ekki skylda en öll þau sem ljúka grunnskóla eða eru orðin 16 ára, eiga að geta hafið nám í framhaldsskóla þar sem svokölluð fræðsluskylda er til 18 ára aldurs.
Skólar eftir landshlutum
Heimasíður og upplýsingar um innritun
Innritun í framhaldsskóla
Upplýsingar um innritun í framhaldsskóla og kynningarefni er að finna á vef Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu - https://innritun.is/
Umsóknarferlinu er þannig háttað að nemendur grunnskóla fá sendan veflykil og leiðbeiningar en forsjáraðilar fá einnig bréf með upplýsingum um innritunina.
Umsækjendur 17 ára og eldri nota auðkenni frá island.is eða rafræn skilríki. Framhaldsskólarnir auglýsa sjálfir fyrirkomulag innritunar í fjar- og dreifnám og kvöldskóla.
Einkunnir flytjast rafrænt frá grunnskólum til framhaldsskóla en hægt er að senda viðbótargögn með sem fylgiskjöl.
Reglur um inntökuskilyrði hvers skóla er að finna á heimasíðum þeirra.
Námstími
Námstími í framhaldsskóla getur verið mislangur en oftast 3 – 4 ár í bóknámi til stúdentsprófs, námi til ákveðinna starfsréttinda og listnámi. Á langflestum brautum er í boði að ljúka stúdentsprófi.
Þá eru í mörgum skólum undirbúningsbrautir fyrir þau sem ekki hafa náð tilskildum árangri í grunnskóla til að innritast á aðrar brautir.
Það er mikil breyting að fara úr grunnskóla yfir í framhaldsskóla. Mikilvægt er að velta fyrir sér hve margar einingar rétt sé að taka á hverri önn, möguleikanum á að þurfa að taka aftur tiltekna áfanga, gæta vel að mætingu og því hvernig náminu er sinnt frá degi til dags.
Fjöldi lokinna eininga á önn stýrir í raun námshraðanum í áfangaskólum og þarf til dæmis að ljúka 33 – 34 einingum á hverri önn til að ná stúdentsprófi á þremur árum. Einnig þarf ákveðna lágmarkseinkunn til að ná hverjum áfanga og halda áfram í þann næsta.