Afbrotafræði er undirgrein félagsfræði en tengist einnig fræðigreinum á borð við sálfræði, lögfræði, hagfræði og náttúruvísindum. Í faginu er greint á milli afbrotafræði og svokallaðrar sakfræði þar sem sú fyrrnefnda rannsakar tilurð refsilaga, umfang afbrota, útbreiðslu þeirra og afleiðingar en sakfræðin fjallar fremur um meðferð og afgreiðslu refsimála í stjórnkerfinu.

Afbrotafræðingar fjalla því fyrst og fremst um tíðni og eðli afbrota en sakfræðingar við réttarvörslukerfið sjálft, svo sem hlutverk lögreglu, dómstóla og fangelsa. Mikil áhersla er lögð á aðferðafræði, refsilögin og fræðilegar kenningar um afbrot og samfélag.

Afbrotafræðingar sérhæfa sig á tilteknum sviðum  og geta verkefnin verið nokkuð ólík eftir vinnustöðum, til dæmis eftir því hvort unnið er innan réttarvörslukerfisins eða við rannsóknir og fræðimennsku.

Erlendis starfa afbrotafræðingar hjá lögreglu- eða fangelsismálayfirvöldum, í tengslum við hjálparmiðstöðvar eða við tiltekin afmörkuð verkefni, svo sem að draga úr afbrotum meðal ungs fólks eða fyrirbyggja frekari afbrotahegðun að afplánun lokinni.  Einnig getur starfssviðið tengst heilbrigðis- og umönnunarþjónustu líkt og  sálgæslu eða fíknivanda.

Afbrotafræðingar vinna hvort tveggja hjá hinu opinbera og einkaaðilum. Oftast er í unnið í samvinnu við aðrar starfsstéttir á borð við félagsráðgjafa, lögfræðinga eða félagsfræðinga.

Helstu verkefni

- greina félagsleg fyrirbæri sem tengjast brotastarfsemi, s.s. ólöglegum fíkniefnum. ofbeldi, skipulagðri glæpastarfsemi eða viðurlögum
- rannsóknir á afbrotum, afbrotahegðun og viðbrögðum samfélagsins
- samfélagsumræða um stefnur og strauma á sviðinu

Hæfnikröfur

Afbrotafræðingur þarf hafa áhuga á helstu málum samfélagsins,  sýna ábyrgð í opinberri umræðu og starfi ásamt því að eiga gott með að setja sig í spor annarra, ekki síst í erfiðum aðstæðum. Samkennd með öðrum er því æskilegur kostur en geta jafnframt horft hlutlægt á málin þegar þess þarf.

Að hluta byggt á Utdanning.no - Kriminolog
Rannsóknarstofa í afbrotafræði

Námið

Afbrotafræði er kennd við Háskóla Íslands, sem 30 eininga diplóma í félagsfræði. Markmið námsins er að veita nemendum fræðilega og hagnýta þekkingu á sviðum afbrota og er að fullu metið inn í meistaranám í félagsfræði.

Til að ljúka fullu námi sem afbrotafræðingur þarf í dag að sækja nám erlendis en Háskólinn á Akureyri áformar nám í afbrotafræði á BA stigi sem hluta af námi í félagsvísindum, samhliða námi í lögreglufræðum.

Ekki fyrir þig?

Skoðaðu aðra valmöguleika