Blaða- og fréttamenn safna saman upplýsingum um fréttnæma atburði og skrifa um þá fréttir sem sendar eru út í blöðum, útvarpi, sjónvarpi og/eða á vef. Starfið snýst að miklu leyti um að túlka upplýsingar, ákveða hvort og hvernig þær skuli notaðar og koma síðan til skila á skýran og upplýsandi hátt. Í starfinu felast gjarnan samskipti við heimildafólk og fréttaritara, utan lands og innan.
Sem blaða- og fréttamaður gætirðu til dæmis starfað á dagblöðum og tímaritum, í útvarpi eða sjónvarpi eða á vefmiðlum af ýmsu tagi. Blaða- og fréttamenn sérhæfa sig stundum í ákveðnum málaflokkum, svo sem íþróttum, efnahagsmálum, stjórnmálum, dómsmálum, atvinnumálum eða erlendum/innlendum fréttum. Flestir þurfa þó að geta sinnt fleiru en sérsviðinu tilheyrir.
Helstu verkefni
- safna upplýsingum með viðtölum, gagnaleit og skírskotun til fyrri frétta
- skipuleggja efni og búa undir fréttaflutning
- senda fréttir beint af vettvangi
- rannsaka og greina upplýsingar með tilliti til áreiðanleika
- ferðast til að afla frétta
Hæfnikröfur
Blaða- og fréttamenn þurfa að hafa afar góð tök á íslensku máli. Samskiptahæfileikar, frumkvæði og skapandi, nákvæm og gagnrýnin hugsun eru miklir kostir í starfi blaða- og fréttamanns ásamt því að fylgjast vel með atburðum líðandi stundar. Í starfinu er mikið unnið með mismunandi tölvuforrit og nauðsynlegt að geta nýtt samfélagsmiðla á borð við Facebook og Twitter. Einnig er mikilvægt að geta notað stafrænar myndavélar, upptökuvélar, farsíma, hljóðnema eða aðra tækni sem við á hverju sinni.
Blaðamannafélag Íslands
Námið
Blaðamennska er ekki lögbundin starfsgrein og er ákveðinnar menntunar ekki krafist. Flestir starfandi blaða- og fréttamenn eru þó með háskólagráðu í einhverri grein. Á Íslandi er hægt að læra fjölmiðlafræði til BA- gráðu við Háskólann á Akureyri þar sem meistaranám í fjölmiðla- og boðskiptafræði hefur einnig verið í boði. Við Háskóla Íslands er í boði 120 eininga BA - nám.
Þá hafa blaðamenn sótt í fjögurra ára BA nám í blaðamennsku til Danmerkur.
Tengd störf