Framreiðslumenn eru faglærðir þjónar sem vinna einkum á veitingastöðum, hótelum, kaffihúsum eða við veisluþjónustu. Í starfinu felst að undirbúa fundi, borðhald, veislur og sinna daglegri stjórnun í veitingasölum. Framreiðslumenn sjá einnig um innkaup á vörum, mat- og vínseðla í samvinnu við matreiðslumenn, viðeigandi uppröðun húsbúnaðar og bera ábyrgð á þjónustu við gesti. Framreiðsla er löggilt iðngrein.
Framreiðslumenn sjá einnig um vínbirgðir og tryggja rétta meðhöndlun á víni ásamt því að blanda og afgreiða drykki.
Helstu verkefni
- taka á móti gestum, afhenda matseðla, þjónusta og ráðleggja
- veita upplýsingar um mat svo sem hráefni og eldunaraðferðir
- taka niður pantanir og bera fram veitingarnar
- sjá um lokastig matreiðslu í sal með því að skera og eldsteikja þegar við á
- leiðbeina um val á mat- og drykk, skreytingum og fyrirkomulagi veislufanga
- útbúa reikninga, taka við greiðslu og sjá um daglegt uppgjör
Hæfnikröfur
Við framreiðslu er mikilvægt að hafa áhuga á því hvernig matur er framreiddur, borðskreytingum, skipulagningu borðhalds og veisluhalda auk þess að búa yfir þekkingu á víni. Í starfi sem framreiðslumaður þarftu að geta tekið á móti viðskiptavinum með fjölbreyttar óskir, þarfir, siði og menningarlegan bakgrunn. Æskilegt er að geta leiðbeint gestum hvort tveggja á íslensku og erlendum tungumálum.
Námið
Nám í framreiðslu er kennt í Menntaskólanum í Kópavogi og við Verkmenntaskólann á Akureyri auk þess sem grunnnám matvæla- og ferðagreina er kennt við Fjölbrautaskóla Suðurlands, ætlað nemendum sem stefna á vinnu við ferðaþjónustu eða frekara nám í matvælagreinum.
Meðalnámstími er þrjú ár að meðtalinni starfsþjálfun.
Raunfærnimat hefur farið fram og/eða kann að vera í boði.
Tengd störf