Húsgagnasmiður vinnur við að smíða, gera upp og endurnýja gömul húsgögn og innréttingar, ásamt því til dæmis að smíða leiktjöld, leikmuni eða innréttingar í skip. Húsgagnasmiðir vinna gjarnan út frá hugmyndum og verklýsingum hönnuða eða eftir eigin teikningum. Húsgagnasmíði er löggilt iðngrein.

Sem húsgagnasmiður gætirðu unnið á verkstæði, við sérsmíði og viðgerðir, á byggingarstað eða við ráðgjöf og sölu í húsgagnaverslun. Húsgagnasmiðir vinna mikið með höndunum en einnig er um að ræða sérhæfða vélavinnu til dæmis í tölvustýrðum trésmíðavélum.

Helstu verkefni

- meta þörf á viðhaldi eða breytingum á húsgögnum og tréverki innanhúss
- smíða almenn heimilis- og skrifstofuhúsgögn
- setja saman smíðishluta, spónleggja, líma, slípa og meðhöndla hlut á lokastigi
- leiðbeina um val á efni og vinnuaðferðum
- smíða plötu- og grindarhúsgögn, sethúsgögn, útihurðir og glugga
- smíða og setja upp innréttingar, innihurðir og tréstiga
- klæða gólf, veggi og loft innanhúss

Hæfnikröfur

Húsgagnasmiðir leggja mat á viðhald og viðgerðir húsgagna og þurfa því að þekkja helstu eiginleika og verkan efna og geta valið efni við hæfi hverju sinni. Einnig er unnið með yfirborðsefni svo sem lökk og litarefni og því gott að þekkja grunnatriði lita- og formfræði. Þá er mikilvægt að vera fær um að lesa teikningar af einstökum húsgögnum og geta teiknað upp deililausnir og frágang – fríhendis eða með teikniforritum.

Námið

Nám í húsgagnasmíði er kennt við Tækniskólann - skóla atvinnulífsins auk þess sem grunnnám bygginga- og mannvirkjagreina er kennt víðar.

Meðalnámstími er fjögur ár, fimm annir í skóla auk starfsþjálfunar.

Ekki fyrir þig?

Skoðaðu aðra valmöguleika