Jeppaleiðsögumaður ekur ferðafólki um landið,  gjarna hálendi og jökla, og veitir samtímis leiðsögn.  Í starfinu er fjallað um það sem fyrir augu ber; náttúru, lífríki og áhugaverða staði ásamt því að leiðbeina um þá afþreyingu og þjónustu sem í boði er hverju sinni. Farartækin, jeppar eða smárútur, eru oft breytt og sérútbúin til þess að fara leiðir utan hefðbundinna ferðamannaleiða, gjarnan fáfarna fjallvegi.
Í starfi sem jeppaleiðsögumaður gætirðu til dæmis unnið fyrir ferðaskrifstofur, ferðaheildsala eða afþreyingarfyrirtæki. Jeppaleiðsögumenn vinna með landvörðum, skálavörðum og starfsfólki á ferðaskrifstofum og gististöðum og gæta þess að náttúru- og menningarminjar verði ekki fyrir skemmdum af völdum ferðafólks.

Helstu verkefni

- taka á móti ferðafólki fyrir hönd ferðaskrifstofu eða skipuleggjanda
- útfæra skipulagðar ferðir um landið, hálendið og jökla, við sumar og vetraraðstæður
- aðstoða og miðla upplýsingum um klæðnað, veðurútlit o.þ.h.
- fylgjast með upplýsingum um veður og færð
- hafa eftirlit með og undirbúa farartæki fyrir ferðir
- minniháttar viðgerðir ef farartæki bilar
- tryggja öryggi ferðafólks og bregðast við óvæntum aðstæðum

Hæfnikröfur

Jeppaleiðsögumaður þarf að hafa aukin ökuréttindi. Mikilvægt er að kunna leiðsögutækni, geta stjórnað hópi, brugðist við slysum og hafa grunnþekkingu í skyndihjálp. Einnig þarf að  geta brugðist við íslenskum vetraraðstæðum og hafa fengið undirstöðuþjálfun í fjallamennsku. Æskilegt er að þekkja vel til sögu og menningar landsins, helstu ferðamannaleiðir, staði, söfn og stofnanir á hverju landsvæði og geta leiðbeint ferðafólki á erlendu tungumáli. Auk þess þarf jeppaleiðsögumaður að þekkja farartækið, geta sinnt nauðsynlegum viðgerðum og brugðist við óvæntum aðstæðum svo sem í ám, vötnum eða á jöklum. 
Hæfnisetur ferðaþjónustunnar

Námið

Nám fyrir verðandi leiðsögumenn er við Menntaskólann í Kópavogi auk þess sem slíkt nám hefur verið í boði við Endurmenntun Háskóla Íslands og Símenntun Háskólans á Akureyri.

Ekki fyrir þig?

Skoðaðu aðra valmöguleika