Landfræðingar vinna fjölbreytt störf sem varða umhverfi okkar og samfélag. Landfræði er þverfagleg grein sem byggir á þekkingu á mörgum sviðum og vinna landfræðingar því oft í samstarfi við vísindafólk í tengdum greinum á borð við eðlisfræði, jarðfræði, veðurfræði, þjóðfélagsfræði og hagfræði.
Sem landfræðingur gætirðu starfað víða í atvinnulífinu; stundað rannsóknir og sinnt ráðgjöf um landnýtingu og náttúruvernd, séð um hönnun og rekstur landfræðilegra upplýsingakerfa og sinnt kortagerð, stundað kennslu á öllum skólastigum eða unnið við ferðaþjónustu og fjölmiðla.
Landfræðingar sérhæfa sig gjarnan á ákveðnu sviði innan greinarinnar svo sem í borga- eða byggðalandafræði, hagrænni landafræði, landnýtingu, kortagerð, umhverfismálum, ferðamálum eða á sviði skipulags byggðar og atvinnulífs.
Helstu verkefni
- náttúru- og umhverfisrannsóknir
- vinna að skipulagningu umhverfis og greina félagsleg skilyrði staða
- afla landfræðilegra gagna til greininga og kortagerðar
- skrá, túlka og vinna úr loft- og gervihnattamyndum
Hæfnikröfur
Landfræðingur þarf að hafa mikinn áhuga og góða þekkingu á umhverfismálum og sambúð fólks og náttúru. Mikilvægt er að hafa góða greiningarhæfni og tölvufærni sem og að hafa gott vald á úrvinnslu talna og gagna.
Námið
Landfræði er þriggja ára háskólanám til BS – gráðu, kennt við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands.
Tengd störf