Matvælafræðingar starfa við vöruþróun, nýsköpun, ráðgjöf, framleiðslu og gæðaeftirlit matvæla. Hlutverk þeirra er að tryggja að neytendur fái í hendur holl og góð matvæli innlend sem innflutt. Til dæmis veita matvælafræðingar verslunum og dreifingaraðilum ráðgjöf um innkaup, hreinlæti, flutning og geymslu matvæla. Matvælafræðingar eru löggilt heilbrigðisstétt.

Sem matvælafræðingur gætirðu starfað hjá framleiðslufyrirtæki, á rannsóknar- og eftirlitsstofnun, inni á spítölum eða hjá lyfjafyrirtæki.

Helstu verkefni

- rannsóknir á neysluvenjum og næringargildi
- skoða framleiðsluferli og meta hráefni
- gæðaeftirlit við innkaup, framleiðslu, geymslu, pökkun og dreifingu matvæla
- þróar nýjar vörur eða endurbæta eldri afurðir
- setja gæðastaðla fyrir matvæli og útbúa lýsingar á vinnsluferli
- ráðgjöf varðandi vörukynningar

Hæfnikröfur

Matvælafræðingar fá starfsleyfi frá landlækni og er krafist BS-prófs í matvælafræði að lágmarki. Matvælafræðingur þarf að þekkja vel þau lög og reglugerðir sem gilda um íslenska matvælalöggjöf auk þess sem mikilvægt er að þekkja faglegar takmarkanir og virða þagnarskyldu þegar við á.

Matvæla- og næringarfræðafélag Íslands

Námið

Matvælafræði er kennd við matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands. Nám til BS – gráðu tekur þrjú ár en flestir matvælafræðingar ljúka fimm ára meistaragráðu.

Ekki fyrir þig?

Skoðaðu aðra valmöguleika