Sérkennari sér um kennslu sem felur í sér breytingar á námsmarkmiðum, námsefni, námsaðstæðum og/eða kennsluaðferðum miðað við það sem öðrum nemendum á sama aldri er boðið upp á. Framkvæmd sérkennslu getur verið með margvíslegu móti og fer ýmist fram utan eða innan almennra bekkjardeilda, í sérdeildum eða sérskólum. Hún tekur mið af þörfum nemenda og aðstæðum á hverjum stað.

Verksvið sérkennara getur falist í kennslu, stjórnunarstörfum, ráðgjöf og/eða vinnu við skólaþróun og rannsóknir. Sérkennarar eru í samstarfi við kennara og annað starfsfólk skóla svo sem þroskaþjálfa, stuðningsfulltrúa og náms- og starfsráðgjafa auk tengsla við þjónustustofnanir utan skólakerfisins og foreldra nemenda með sérþarfir.

Sem sérkennari gætirðu starfað í almennum skólum, sérskólum og sérdeildum á öllum skólastigum auk tengdra stofnanna.

Helstu verkefni

- greining á námsstöðu nemenda, málþroska og lestrarerfiðleikum
- teymisfundir vegna nemenda með sérþarfir
- gerð námsáætlana í samstarfi við kennara
- einstaklingsmiðuð kennsla
- ráðgjöf til kennara og foreldra varðandi nám, kennslu og námsgögn
- aðstoð við gerð einstaklingsnámskrár
- umsjón með námsgögnum sem tengjast sérkennslu
- rannsóknir og mat á skólastarfi

Hæfnikröfur

Sérkennarar þurfa að hafa lokið kennsluréttindanámi og hafa leyfisbréf til kennslu á leik-, grunn- eða framhaldsskólastigi. Að auki þurfa sérkennarar að lágmarki 60 eininga framhaldsnám í sérkennslufræðum.

Félag sérkennara á Íslandi

Námið

Nám í sérkennslufræðum er kennt við deild kennslu- og  menntunarfræða í Háskóla Íslands auk námsleiðar Háskólans á Akureyri sem kallast Nám og margbreytileiki - sérkennslufræði.

Um er að ræða háskólanám á meistarastigi.

Ekki fyrir þig?

Skoðaðu aðra valmöguleika