Skjalaverðir starfa við skráningu og frágang bréfa og skjala. Í starfinu felst að skipuleggja skjalaflokka og aðgengi að skjölum, ákveða hverjir megi vinna með skjölin, hvað skuli varðveita og hverju megi henda.

Í starfi sem skjalavörður gætirðu unnið í skjalasafni á borð við Þjóðskjalasafn Íslands, skjalasafni háskóla, sveitarfélaga eða annarra embætta og stofnana. Gjarnan er unnið í samvinnu við þá sem afhenda skjöl til varðveislu, gefendur skjalasafna, notendur og fleiri.

Helstu verkefni

- greina uppruna skjala og varðveisluferli
- varðveita skjöl sem hafa sögu-, laga-, menningar- og fræðilegt gildi
- huga að ólíkum varðveisluaðferðum
- útbúa skrár yfir skjalasöfn og aðstoða við heimildaleit
- gera áætlun um eyðingu gagna

Hæfnikröfur

Skjalaverðir þurfa að búa yfir skipulagshæfileikum, gagnrýnni hugsun auk sjálfstæðra og nákvæmra vinnubragða. Gott er að hafa áhuga og þekkingu á sagnfræði, þjóðfræði og stjórnsýslu.

Félag héraðsskjalavarða á Íslandi
Þjóðskjalasafn Íslands

Námið

Hagnýt skjalfræði er kennd í Háskóla Íslands, sem viðbótardiplóma að loknu BA prófi.

Ekki fyrir þig?

Skoðaðu aðra valmöguleika