Tækniteiknari vinnur við teikningar og uppdrætti ásamt hönnunarvinnu, framsetningu og útgáfu teikninga. Unnið er eftir vinnuteikningum, loftmyndum eða fyrirmælum frá hönnuðum og felst vinnan meðal annars í grunnteikningu og teikningum af húsum, innréttingum, landslagi, skipulagi eða vélum. Verkefnin eru alla jafna unnin í tvívíðum eða þrívíðum teikniforritum.

Í starfi sem tækniteiknari gætirðu til dæmis unnið á teiknistofu arkitekta, verkfræðistofu, með landslagsarkitektum eða hjá ríki og bæ.

Helstu verkefni

- fullvinna teikningar, leiðrétta þær og breyta
- setja inn skýringartexta og athugasemdir
- skeyta saman teikningahluta
- afgreiða teikningar og veita upplýsingar um þær
- kynningarstörf, útlitshönnun og uppsetning smærri sýninga
- samskipti við prentstofur um prentun, frágang og dreifingu teikninga

Hæfnikröfur

Í starfi tækniteiknara er vandvirkni mikill kostur en auk þess er mikilvægt að hafa skipulag á hlutunum við grafíska framsetningu teikninga og gagna. Tækniteiknari vinnur mikið við tölvu og þarf að hafa góð tök á hugbúnaði sem tengist framsetningu og útgáfu teikninga.

Tækniteiknari þarf að þekkja til einfaldrar myndvinnslu og hluta á borð við teiknigrunna, teikningaskrár, teikninganúmerakerfi og höfundarétt.

Námið

Tækniteiknun er kennd í Tækniskólanum. Meðalnámstími er þrjú ár.

Ekki fyrir þig?

Skoðaðu aðra valmöguleika