Vínþjónn sérhæfir sig í framreiðslu á víni og pörun víns og matar. Vínþjónar þekkja vel til jafnt léttra og sterkra vína og hvaða vín passa með hverjum rétti. „Sommelier“ er alþjóðlegt heiti yfir vínþjón.
Vínþjónar vinna gjarna á fínni veitingastöðum, hótelum og börum. Víða erlendis starfa vínþjónar einnig í tengslum við innflutning á víni sem og við greinaskrif um vín í blöðum og tímaritum.
Helstu verkefni
- sjá til þess að vín séu geymd við bestu mögulegu aðstæður og hitastig
- skipuleggja vínlager og tryggja rétta verðmerkingu
- útbúa vínseðil og fræða starfsfólk um vín, pörun við mat og rétta framreiðslu
- kynna gestum vínseðil og segja frá nýjum eða áhugaverðum vínum
- benda gestum á viðeigandi vín með áherslu á pörun víns og matar
- panta vín eftir þörfum og framboði staðarins
- þekkja vínglös og hvaða tegund fer saman við hvert vín
Hæfnikröfur
Vínþjónn þarf að búa yfir viðamikilli þekkingu á víni, vínframreiðslu og pörun víns og matar. Nauðsynlegt er að búa yfir þjónustuhæfileikum, góðri samskiptatækni og geta unnið undir álagi.
Námið
Vínþjónn er ekki lögverndað starfsheiti á Íslandi en fjöldi skóla erlendis og alþjóðlegra samtaka sinna fræðslu og þjálfun fyrir vínþjóna.
Þá er nám í framreiðslu í boði við Menntaskólann í Kópavogi.
Tengd störf