Búningahönnuður

Búningahönnuðir ákveða heildarútlit sýningar í samstarfi við leikstjóra og aðra listræna stjórnendur og hanna búninga í samræmi við það. Í starfinu felst að teikna búninga eða setja upp á annan myndrænan hátt ásamt því að velja efni og liti sem henta heildarútliti og notkun búninga hverju sinni.

Helstu verkefni:

  • greina handrit, teikna búninga og taka þátt í undirbúningi sýningar eða verkefnis
  • ákveða útlit sýningar í samráði við leikstjóra og leikmyndahönnuð
  • lesa handrit og vinna heimildavinnu, til dæmis í sambandi við ákveðið tímabil
  • velja efni, liti, áferð og snið búninga
  • huga að förðun og hári og samræmi þess, búnings og heildarútlits leikmyndar
  • meta hvernig búa á til einstaka hluti búninganna í sýningum
  • vinna að úrlausnum ýmissa vandamála er varða búninga og koma upp á æfingatímum
  • koma hönnun í framkvæmd til búningagerðarfólks á verkstæði

Sem búningahönnuður gætirðu til dæmis unnið í stórum sem smáum leikhúsum, í sjónvarpi eða sem verktaki við kvikmyndagerð.

Hvernig verð ég?

Búningagerð er ekki kennd sérstaklega á Íslandi. Fatahönnunarbraut er hins vegar við Listaháskóla Íslands en um er að ræða þriggja ára nám til BA – gráðu.

Þá eru tengdar greinar á borð við hönnun og nýsköpun, fatatækni, kjólsaum og klæðskurð kenndar við Tækniskólann auk fata- og textílkjörsviðs listnámsbrautar Fjölbrautaskólans í Breiðholti og Fjölbrautaskólans í Garðabæ.

Einnig hafa listnámsbrautir verið við Fjölbrautaskóla Suðurlands, Fjölbrautaskóla Suðurnesja, Menntaskólann á Egilsstöðum og Verkmenntaskólann á Akureyri.

Hæfnikröfur

Búningahönnuðir þurfa að hafa gott hugmyndaflug og geta teiknað upp eigin hugmyndir. Mikilvægt er að skilja sniðagerð, hafa áhuga á hönnun og sögu auk þess að þekkja til þess hvernig spila má saman efni, litum og áferð. Skipulagshæfileikar og geta til að vinna með öðrum eru einnig nauðsynlegir eiginleikar. Búningahönnuðir vinna mikið með pappír og teikniáhöld auk tölvuvinnu.

 

Náms- og starfsráðgjöf

Náms- og starfsráðgjafar hjálpa til við upplýsingaleit og aðstoða að finna leiðir til að bæta færni í námi og efla í starfi.

Um er að ræða ráðgjafa símenntunarmiðstöðva, háskóla, á vegum fagráða eða sérfróða um raunfærnimat.

Ábendingar

Vefurinn í er sífelldri vinnslu við að bæta virkni og innihald. Allar ábendingar um úrbætur eru vel þegnar og við hlustum á allt sem notendur hafa að segja.

Umsjón: Fræðslumiðstöð atvinnulífsins

Umsjónarmaður: Arnar Þorsteinsson (arnar@frae.is)