Danskennari

Danskennarar sinna danskennslu í dansskólum, listdansskólum, jassballettskólum, líkamsræktarstöðvum eða á námskeiðum. Starfið felst að miklu leyti í að kenna og æfa einstök spor og hreyfingar og tengja þau saman í dans.

Helstu verkefni:

  • gerð kennsluáætlana og að ákveða kennsluaðferðir
  • leiðrétta líkamsstöðu og tækni nemenda
  • leiðbeina við túlkun í dansi
  • dansa með sýnikennslu
  • semja eða setja saman dansa fyrir nemendasýningar
  • æfa nemendur fyrir merkja- eða stigapróf og keppni
  • dæma í danskeppnum og prófum
  • þjálfa atvinnudansara og undirbúa þá fyrir sýningar eða keppni

Samkvæmisdanskennarar sérhæfa sig oft í dönsum á borð við suðurameríska dansa, þjóðdansa eða þá sem eru í tísku hverju sinni. Listdanskennarar kenna sígildan listdans og nútímalistdans en jassballettkennarar byggja kennsluna á listdansi í bland við aðrar danstegundir þar sem áhersla er lögð á frjálsan spuna.

Hvernig verð ég?

Listdanskennsla getur verið allt að 5 ára háskólanám. Margir hafa t.d. lokið námi af listdansbraut í framhaldsskóla, BA gráðu frá LHÍ eða erlendum listdansskóla að viðbættu tveggja ára  kennsluréttindanámi hér heima eða erlendis.

Hæfnikröfur

Í starfi danskennara eru danshæfileikar nauðsynleg undirstaða auk áhuga á tónlist og því að hvetja aðra til að þróa áfram sína færni á þessum sviðum. Þolinmæði og góð félags- og samskiptafærni eru miklir kostir ásamt því að geta stjórnað nemendahópum og hvatt þá og einstaklinga áfram.

 

Náms- og starfsráðgjöf

Náms- og starfsráðgjafar hjálpa til við upplýsingaleit og aðstoða að finna leiðir til að bæta færni í námi og efla í starfi.

Um er að ræða ráðgjafa símenntunarmiðstöðva, háskóla, á vegum fagráða eða sérfróða um raunfærnimat.

Ábendingar

Vefurinn í er sífelldri vinnslu við að bæta virkni og innihald. Allar ábendingar um úrbætur eru vel þegnar og við hlustum á allt sem notendur hafa að segja.

Umsjón: Fræðslumiðstöð atvinnulífsins

Umsjónarmaður: Arnar Þorsteinsson (arnar@frae.is)