Fatahönnuður

Fatahönnuðir hanna nýjar fatalínur og aðlaga hönnun tískustefnum hverju sinni.  Í starfinu felst hugmyndavinna sem felur í sér rannsóknar-, skissu- og þróunarvinnu og framsetning hugmyndar segir til um efni, liti og munstur og annað sem til þarf.  Teikningar af fatnaði og fylgihlutum eru síðan notaðar til grundvallar við sniðagerð.  Þá eru unnar frumgerðir að fötum og síðan er hönnunin send í framleiðslu og komið á framfæri með ýmsum hætti.

Helstu verkefni:

  • vinna hugmyndir til grundvallar framleiðslu fatnaðar og fylgihluta
  • velja efni, tölur, rennilása, frágang og hvað annað sem viðkemur samsetningu á fatnaði og fylgihlutum
  • markaðssetja hönnun og koma á framfæri
  • finna framleiðendur og leiðir til að koma framleiðslunni til landsins
  • safna eigin hönnun í möppu til að sýna viðskiptavinum og kollegum
  • bókhald og gerð kostnaðar- og viðskiptaáætlana

Sem fatahönnuður gætirðu unnið sjálfstætt eða í samstarfi við aðra, svo sem klæðskera, saumafólk, stílista og umboðsmenn.  Þeir sem starfa hjá stærri fyrirtækjum geta einskorðað sig við tiltekin verkefni í hönnunarferlinu á borð við efnisval.

Hvernig verð ég?

Fatahönnunarbraut er við Listaháskóla Íslands en um er að ræða þriggja ára nám til BA – gráðu.

Þá eru tengdar greinar á borð við hönnun og nýsköpun, fatatækni, kjólasaum og klæðskurð kenndar við Tækniskólann auk fata- og textílbrautar Fjölbrautaskólans í Breiðholti og Fjölbrautaskólans í Garðabæ.

Einnig hafa listnámsbrautir verið við Fjölbrautaskóla Suðurlands, Fjölbrautaskóla Suðurnesja, Menntaskólann á Egilsstöðum og Verkmenntaskólann á Akureyri.

Undirbúningsnám er einnig í boði við Myndlistarskólann í Reykjavík ásamt diplómanámi í textílhönnun.

 

Hæfnikröfur

Fatahönnuðir þurfa að hafa listræna hæfileika, skilning á menningu og vera duglegir að fylgjast með nýjungum í greininni. Þar sem tíska og tíðarandi eru nátengd er skilningu á lífi fólks og þróun samfélaga sem tengjast þeim mörkuðum sem varan er hugsuð fyrir, mikilvægur. Nauðsynlegt er að hafa skipulagshæfileika og geta unnið undir álagi. Einnig er mikilvægt að eiga gott með samskipti við aðra og getu til að stýra vinnu annarra. Þá er þekking í gerð viðskiptaáætlana og bókhaldi æskileg.

Nánari upplýsingar

Náms- og starfsráðgjöf

Náms- og starfsráðgjafar hjálpa til við upplýsingaleit og aðstoða að finna leiðir til að bæta færni í námi og efla í starfi.

Um er að ræða ráðgjafa símenntunarmiðstöðva, háskóla, á vegum fagráða eða sérfróða um raunfærnimat.

Ábendingar

Vefurinn í er sífelldri vinnslu við að bæta virkni og innihald. Allar ábendingar um úrbætur eru vel þegnar og við hlustum á allt sem notendur hafa að segja.

Umsjón: Fræðslumiðstöð atvinnulífsins

Umsjónarmaður: Arnar Þorsteinsson (arnar@frae.is)