Geðlæknir

Geðlæknar starfa við forvarnir geðsjúkdóma, greiningu þeirra, meðferð og endurhæfingu. Í starfinu felst einnig greining og meðferð ýmissa hegðunarvandamála. Geðlæknar nota margvísleg meðferðarúrræði; líffræðileg, félagsleg og/eða í formi sállækninga.

Helstu verkefni:

  • mat á andlegri og líkamlegri heilsu og greining geðsjúkdóma
  • veita meðferð einstaklingum með geðræna kvilla
  • veita einstaklings-, hjóna-, og fjölskylduviðtöl og beita hópmeðferð
  • samvinna við fjölskyldur og/eða fyrri meðferðaraðila
  • móta meðferðaráætlanir til lengri eða skemmri tíma
  • annast og stjórna framkvæmd meðferðar
  • annast handleiðslu annarra starfsmanna í geðheilbrigðiskerfinu

Sem geðlæknir geturðu ýmist unnið á einkastofu eða innan heilbrigðiskerfisins; á göngudeildum, dagdeildum, legudeildum eða endurhæfingarstöðvum. Geðlæknar leiða oftast samstarf innan geðheilbrigðiskerfisins og taka jafnframt þátt í kennslu og rannsóknum. Margir sérhæfa sig á sviðum á borð við barna- og unglingageðlækningar, meðferð áfengis- og vímuefnasjúklinga, öldrunargeðlækningar eða einstökum meðferðarformum.

Hvernig verð ég?

Til að verða geðlæknir þarf fyrst að ljúka sex ára grunnnámi í læknisfræði. Þá tekur við kandídatsár, starfsþjálfun til að öðlast almennt lækningaleyfi. Því næst tekur við fjögurra og hálfs árs sérfræðinám í geðlækningum sem hægt er að ljúka á Íslandi og fer að mestu fram á geðdeild Landspítala - Háskólasjúkrahúss.

Hæfnikröfur

Í starfi geðlæknis er nauðsynlegt að hafa víðtæka þekkingu á þeim sálfræðilegu prófum, lyfjum og lækningaaðferðum sem notuð eru í greininni ásamt því að þekkja vel til taugalífeðlislegra rannsókna og meðferðaráætlana. Þættir á borð við ábyrgð, áreiðanleiki og nákvæmni í vinnubrögðum eru einnig mikilvægir kostir geðlæknis auk gagnrýninnar hugsunar. Þá er æskilegt að geta sýnt yfirvegun og rósemi við erfiðar aðstæður ásamt því að vinna vel undir álagi.

Náms- og starfsráðgjöf

Náms- og starfsráðgjafar hjálpa til við upplýsingaleit og aðstoða að finna leiðir til að bæta færni í námi og efla í starfi.

Um er að ræða ráðgjafa símenntunarmiðstöðva, háskóla, á vegum fagráða eða sérfróða um raunfærnimat.

Ábendingar

Vefurinn í er sífelldri vinnslu við að bæta virkni og innihald. Allar ábendingar um úrbætur eru vel þegnar og við hlustum á allt sem notendur hafa að segja.

Umsjón: Fræðslumiðstöð atvinnulífsins

Umsjónarmaður: Arnar Þorsteinsson (arnar@frae.is)