Hagfræðingur

Hagfræðingar skipuleggja og stýra rannsóknum þar sem reynt er að varpa ljósi á tengsl ýmissa þátta í rekstri fyrirtækja og þjóðarbúskap. Hagfræði er gjarnan skipt í tvennt; rekstrarhagfræði og þjóðhagfræði. Rekstrarhagfræðin fjallar um grunneiningar hagkerfa; einstaklinga, fyrirtæki, markaðsaðstæður, kostnað, fjárfestingar og stjórnun. Þjóðhagfræðin, aftur á móti, lítur á hagkerfið sem heild og er þar fremur fjallað um þætti á borð við atvinnuleysi, verðbólgu, tekjuskiptingu og almenna hagstjórn. Skilin þarna á milli eru þó ekki alltaf skörp.

Helstu verkefni:

  • rannsaka og greina hagfræðileg og töluleg gögn
  • skoða tengsl áhrifaþátta í hagkerfinu og gera spár um framtíðarþróun
  • setja fram niðurstöður og útbúa töflur, línurit, skýrslur og greinargerðir
  • veita ráðgjöf um stefnumörkun, skipulagningu og stjórnun
  • sinna fræðslu, ráðgjöf og almennri upplýsingamiðlun um hagfræðileg efni

Í starfi sem hagfræðingur gætirðu starfað fyrir stærri atvinnu- eða þjónustufyrirtæki, bankastofnanir, hagsmunaaðila á vinnumarkaði eða ýmsar stofnanir í stjórnsýslu ríkis og sveitafélaga. Hagfræðingar sérhæfa sig gjarnan á afmörkuðu sviði í opinberum rekstri eða einkarekstri.

Hvernig verð ég?

Hagfræði er kennd í Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík. Grunnnám í hagfræði tekur  þrjú ár og lýkur með BA/BS gráðu. Við H.Í. er einnig í boði tveggja ára meistaranám og viðbótardiplóma.

Hæfnikröfur

Hagfræðingur þarf að hafa góða færni í að stunda rannsóknir og hæfni til að geta greint flóknar upplýsingar og tölfræði. Góð stærðfræðikunnátta og tölvufærni skipta máli sem og hæfni til að útskýra flókin mál á einfaldan hátt. Hagfræðingur þarf að vera skipulagður þegar unnið er að mörgum verkefnum í einu og geta sinnt fræðslu, ráðgjöf og almennri upplýsingamiðlun.

Náms- og starfsráðgjöf

Náms- og starfsráðgjafar hjálpa til við upplýsingaleit og aðstoða að finna leiðir til að bæta færni í námi og efla í starfi.

Um er að ræða ráðgjafa símenntunarmiðstöðva, háskóla, á vegum fagráða eða sérfróða um raunfærnimat.

Ábendingar

Vefurinn í er sífelldri vinnslu við að bæta virkni og innihald. Allar ábendingar um úrbætur eru vel þegnar og við hlustum á allt sem notendur hafa að segja.

Umsjón: Fræðslumiðstöð atvinnulífsins

Umsjónarmaður: Arnar Þorsteinsson (arnar@frae.is)