Hársnyrtir

Starf hársnyrtis felst í að kynna sér óskir viðskiptavina, skoða hár og meta hvaða meðhöndlun hentar því best. Hársnyrtir velur klippingu í samráði við viðskiptavin, þvær hárið og nærir ef þörf krefur og gefur góð ráð um meðferð hársins. Hársnyrtiiðn er löggilt iðngrein.

Helstu verkefni:

  • klippa, lita, greiða og þurrka hár
  • lita hár á mismunandi hátt
  • setja permanent í hár
  • forma og raka skegg
  • selja hársnyrtivörur og leiðbeina um notkun þeirra

Sem hársnyrtir gætirðu unnið sjálfstætt eða á hárgreiðslustofu og átt samvinnu við aðrar faggreinar um ýmislegt sem varðar hár og tísku.

Hvernig verð ég?

Hársnyrtiiðn er kennd í Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra, Tækniskólanum, Verkmenntaskóla Austurlands og Verkmenntaskólanum á Akureyri auk þess sem tveggja ára grunnnám er í boði við Menntaskólann á Ísafirði.

Meðalnámstími er fjögur ár og skiptist í fimm anna nám í skóla og 72 vikna starfsþjálfun. Raunfærnimat hefur farið fram og/eða kann að vera í boði.

Hæfnikröfur

Hársnyrtiiðn krefst ákveðinnar samhæfingar hugar, handa og sjónar sem ekki síst er mikilvæg gagnvart viðskiptavinum vegna notkunar á áhöldum á borð við skæri, rakvélar og hitajárn. Hársnyrtir þarf að geta leitað eftir óskum viðskiptavina auk þess sem æskilegt er að vera í góðu líkamlegu formi þar sem starfinu fylgir talsvert álag á stoðkerfi líkamans.

Gott er að geta beitt fjölbreyttum aðferðum við vinnuna, hafa þekkingu á eiginleikum hárs og meðhöndlun kemískra efna. Þá er mikilvægt er að hársnyrtir fylgist með tískustraumum í faginu og tileinki sér nýjungar.

Náms- og starfsráðgjöf

Náms- og starfsráðgjafar hjálpa til við upplýsingaleit og aðstoða að finna leiðir til að bæta færni í námi og efla í starfi.

Um er að ræða ráðgjafa símenntunarmiðstöðva, háskóla, á vegum fagráða eða sérfróða um raunfærnimat.

Ábendingar

Vefurinn í er sífelldri vinnslu við að bæta virkni og innihald. Allar ábendingar um úrbætur eru vel þegnar og við hlustum á allt sem notendur hafa að segja.

Umsjón: Fræðslumiðstöð atvinnulífsins

Umsjónarmaður: Arnar Þorsteinsson (arnar@frae.is)