Hjúkrunarfræðingur

Störf hjúkrunarfræðinga eru afar fjölbreytt og felast í hjúkrun, kennslu, vísindarannsóknum og stjórnun. Hjúkrunarfræðingar bera faglega ábyrgð á hjúkrunarþjónustu í landinu og er starfsheiti þeirra lögverndað.

Helstu þættir hjúkrunar eru:

  • umönnun sjúklinga
  • mat á ástandi sjúklinga, eftirlit og hjúkrunarmeðferð
  • leiðbeiningar, ráðgjöf og kennsla til skjólstæðinga og aðstandenda
  • forvarnir, heilsuefling og heilsuvernd
  • aðstoð og stuðningur við sjúklinga og aðstandendur
  • endurhæfing

Hjúkrunarfræðingar starfa víðsvegar í þjóðfélaginu, svo sem á heilbrigðisstofnunum og sjúkrahúsum, í heilsugæslu, heimahúsum, skólum og öldrunarstofnunum. Þá geta hjúkrunarfræðingar starfað erlendis, til dæmis við alþjóðleg hjálparstörf.

Hvernig verð ég?

Hjúkrunarfræði er kennd við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri og er fjögurra ára nám til BS gráðu. Meistaranám er í boði við báða skólana og doktorsnám við H.Í.

Til að fá sérfræðingsleyfi á klínískum sérsviðum hjúkrunar þarf meistara- eða doktorspróf. Sérsviðin eru margvísleg og má nefna: Barnahjúkrun, bráðahjúkrun, geðhjúkrun, gjörgæsluhjúkrun, heilsugæsluhjúkrun, krabbameinshjúkrun, skurðhjúkrun og öldrunarhjúkrun. Sjá nánar á heimasiðu Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

Hæfnikröfur

Hjúkrunarfræðingar fá starfsleyfi frá landlækni og þurfa að hafa lokið BS-prófi í hjúkrunarfræði að lágmarki. Hjúkrunarfræðingur þarf að þekkja vel þau lög og reglugerðir sem gilda um heilbrigðisstarfsmenn og geta borið ábyrgð á þeim forvörnum, ráðgjöf, greiningu og hjúkrunarmeðferð sem veitt er. Þá er mikilvægt að viðhalda fagþekkingu og virða siðareglur stéttarinnar.

Náms- og starfsráðgjöf

Náms- og starfsráðgjafar hjálpa til við upplýsingaleit og aðstoða að finna leiðir til að bæta færni í námi og efla í starfi.

Um er að ræða ráðgjafa símenntunarmiðstöðva, háskóla, á vegum fagráða eða sérfróða um raunfærnimat.

Ábendingar

Vefurinn í er sífelldri vinnslu við að bæta virkni og innihald. Allar ábendingar um úrbætur eru vel þegnar og við hlustum á allt sem notendur hafa að segja.

Umsjón: Fræðslumiðstöð atvinnulífsins

Umsjónarmaður: Arnar Þorsteinsson (arnar@frae.is)