Hlaðmaður

Hlaðmaður sér um að ferma og afferma flugvélar, fyrir og eftir flugtak eða lendingar. Í starfinu felst að passa upp á að allur farangur skili sér á réttan stað þar sem farþegar geta sótt hann eða hann fari á rétta vél ef um millilendingu er að ræða. Hlaðmaður tekur einnig við vörum í vöruflutningum og kemur þeim í geymslu þar sem þær eru tilbúnar til afhendingar.
 
Helstu verkefni
• taka við, flokka og sjá til þess að réttur farangur rati í réttar vélar
• nota ökutæki, hleðslutæki og færibönd til að koma farangri til og frá flugvélum
• koma vörum í réttar vörugeymslur
• hlaða farangri á færibönd í komusal
• tilkynna farangur sem orðið hefur fyrir skemmdum eða er grunsamlegur
 
Hlaðmenn aðstoða einnig stundum við þrif og varúðarráðstafanir vegna ísingar eða hreinsa rusl, lausagrjót og snjó af flugbrautum. Starfið fer fram í flugvallabyggingum, vörugeymslum og utandyra, óháð veðri. Hlaðmaður þarf að klæðast endurskinsfatnaði, eyrnahlífum og öryggisskóm.
 
Yfirleitt er um vaktavinnu að ræða.

Hvernig verð ég?

Ekki er gerð formleg krafa um menntun í starfinu en ýmis starfstengd námskeið kunna að vera í boði.

Hæfnikröfur

Hlaðmaður þarf að vera góður í mannlegum samskiptum og teymisvinnu. Æskilegt er að vera í góðu líkamlegu formi til að lyfta og færa til þungan farangur og geta unnið hratt og örugglega. Yfirleitt er gerð krafa um ökuréttindi en einnig er gott að hafa vinnuvélaréttindi.

Tengd störf og námsgreinar

Náms- og starfsráðgjöf

Náms- og starfsráðgjafar hjálpa til við upplýsingaleit og aðstoða að finna leiðir til að bæta færni í námi og efla í starfi.

Um er að ræða ráðgjafa símenntunarmiðstöðva, háskóla, á vegum fagráða eða sérfróða um raunfærnimat.

Ábendingar

Vefurinn í er sífelldri vinnslu við að bæta virkni og innihald. Allar ábendingar um úrbætur eru vel þegnar og við hlustum á allt sem notendur hafa að segja.

Umsjón: Fræðslumiðstöð atvinnulífsins

Umsjónarmaður: Arnar Þorsteinsson (arnar@frae.is)