Iðjuþjálfi

Starf iðjuþjálfa felst í að þjálfa, leiðbeina og endurhæfa ásamt því að sinna forvarnarstarfi. Unnið er með þætti á borð við hreyfigetu, vöðvastyrk, samhæfingu, einbeitingu, úthald, tjáningu og félagsleg samskipti í því augnamiði að auka færni fólks hvað varðar starfsgetu, heimilisstörf, sjálfsumhirðu og aðrar athafnir daglegs lífs. Iðjuþjálfar eru löggilt heilbrigðisstétt.

Helstu verkefni:

  • meta getu, aðstæður og áhuga skjólstæðings til að bjarga sér í daglegu lífi
  • setja markmið í samráði við skjólstæðing
  • skipuleggja og annast einstaklings- eða hópmeðferð
  • skrá framvindu meðferðar
  • fræðsla og ráðgjöf um breytta lífshætti, svo sem vegna vinnuálags eða streitu

Sem iðjuþjálfi gætirðu starfað við sjúkrahús, sérhæfðar stofnanir, heimili fyrir fatlaða eða í skólum. Sums staðar er um að ræða sérútbúnar iðjuþjálfunardeildir þar sem aðstaða er til að veita þjálfun og leiðbeina fólki við ýmis verk er tengjast daglegu lífi. Þá geta iðjuþjálfar starfað utan stofnana svo sem á heimili skjólstæðings.

Hvernig verð ég?

Iðjuþjálfun er fjögurra ára háskólanám sem lýkur með BS-gráðu. Námið er í boði við Háskólann á Akureyri, hvort tveggja þriggja ára nám til BS gráðu og eins árs framhaldsnám á meistarastigi.

Hæfnikröfur

Iðjuþjálfar fá starfsleyfi frá landlækni og þurfa að hafa lokið BS-námi í iðjuþjálfun. Mikilvægt er að búa yfir góðri þekkingu á uppbyggingu og starfsemi mannslíkamans, sálarfræði, félagsfræði og þroskaferli mannsins. Enn fremur er þekking á eðli sjúkdóma og öðru því er getur ógnað heilsu fólks, nauðsynleg.

 

Iðjuþjálfi þarf að geta borið ábyrgð á forvörnum, ráðgjöf, greiningu og þeirri meðferð sem veitt er. Í starfi iðjuþjálfa er mikilvægt að þekkja faglegar takmarkanir og virða þagnarskyldu þegar við á.

 

Nánari upplýsingar

Náms- og starfsráðgjöf

Náms- og starfsráðgjafar hjálpa til við upplýsingaleit og aðstoða að finna leiðir til að bæta færni í námi og efla í starfi.

Um er að ræða ráðgjafa símenntunarmiðstöðva, háskóla, á vegum fagráða eða sérfróða um raunfærnimat.

Ábendingar

Vefurinn í er sífelldri vinnslu við að bæta virkni og innihald. Allar ábendingar um úrbætur eru vel þegnar og við hlustum á allt sem notendur hafa að segja.

Umsjón: Fræðslumiðstöð atvinnulífsins

Umsjónarmaður: Arnar Þorsteinsson (arnar@frae.is)