Innanhúsarkitekt

Innanhúsarkitektar vinna að skapandi verkefnum sem tengjast nýtingu húsnæðis og innanhúss gæðum. Starfið er þríþætt; hugmyndavinna og frumdrög, teikningar og verklýsingar og að lokum umsjón og úttekt á því verkefni sem fyrir liggur hverju sinni. Innanhúsarkitekt er löggilt starfsheiti.

Helstu verkefni:

  • veita þjónustu og ráðgjöf sem tengist skipulagi innanhúss
  • gera úttekt með tilliti til mögulegs skipulags, innviða og innréttinga
  • gerð áætlana og tilboða
  • kynna sér framboð á byggingar- og húsgagnamarkaði

Í starfi sem innanhúsarkitekt gætirðu unnið við hönnun á einkaheimilum, í búðum, á hótelum, veitingastöðum, skólum, spítölum eða verksmiðjum.

Hvernig verð ég?

Innanhúsarkitektúr er alla jafna um fimm ára nám á háskólastigi til löggildingar í faginu. Listaháskóli Íslands býður upp á þriggja ára BA-nám í hönnun og arkitektúr auk þess sem listnámsbrautir eru við nokkra framhaldsskóla s.s. hönnunar- og nýsköpunarbraut Tækniskólans.

Hæfnikröfur

Innanhúsarkitektar þurfa hvort tveggja að geta hugað að listrænni hlið og útliti hönnunar en einnig því sem snýr að hagkvæmni og tæknilegri þáttum. Mikilvægt er að hafa hæfileika í teikningu ásamt tilfinningu fyrir litum, stíl og hlutföllum. Þá eru eiginleikar á borð við skipulagshæfni og að geta komið hugmyndum sínum vel frá sér æskilegir í starfi innanhúsarkitekts.

Náms- og starfsráðgjöf

Náms- og starfsráðgjafar hjálpa til við upplýsingaleit og aðstoða að finna leiðir til að bæta færni í námi og efla í starfi.

Um er að ræða ráðgjafa símenntunarmiðstöðva, háskóla, á vegum fagráða eða sérfróða um raunfærnimat.

Ábendingar

Vefurinn í er sífelldri vinnslu við að bæta virkni og innihald. Allar ábendingar um úrbætur eru vel þegnar og við hlustum á allt sem notendur hafa að segja.

Umsjón: Fræðslumiðstöð atvinnulífsins

Umsjónarmaður: Arnar Þorsteinsson (arnar@frae.is)