Múrari

Múrari vinnur við steypulögn og múrun nýbygginga og annast viðhald og endurbyggingu á steinsteypu og múrhúðun húsa og mannvirkja. Í starfinu felst hvers konar steypuvinna, múrhúðun, flísalagnir og steinhleðsla ásamt viðgerðarvinnu. Múraraiðn er lögvernduð iðngrein.

Önnur helstu verkefni:

  • lesa byggingarteikningar og velja viðeigandi efni
  • leggja steypustyrktarjárn og bendinet í steinsteypuvirki
  • annast blöndun og niðurlagningu steinsteypu
  • leiðbeina um val og efni til nýbygginga og viðhalds
  • annast uppsetningu forsteyptra húseininga

Sem múrari gætirðu unnið hjá múrarameistara, við stjórnunarstörf á byggingarvinnustöðum, við afgreiðslu í byggingavöruverslun eða við ráðgjöf vegna endurbygginga. Múrarar vinna gjarnan í samstarfi við hönnuði og aðra iðnaðarmenn og sérhæfa sig oft í ákveðnum þáttum múrverks, til dæmis viðhaldsvinnu, múrklæðningu, flísa- og steinlögnum eða hleðslum.

Hvernig verð ég?

Múrarabraut er við Tækniskólann og er meðalnámstími fjögur ár, fimm annir í skóla og 72 vikna starfsþjálfun. Grunnnám í bygginga- og mannvirkjagreinum má einnig finna við marga framhaldsskóla. Raunfærnimat hefur farið fram og/eða kann að vera í boði.

 

Hæfnikröfur

Múrari þarf að þekkja vel til steypugalla og skemmda auk þess að þekkja öll helstu efni sem notuð eru við múrverk. Mikilvægt er að kunna grunnatriði í burðarþolsfræði, hafa fengið þjálfun í notkun helstu mælitækja og þekkja lög og reglur um verndun og friðun húsa. Í vinnu við múrverk eru notuð ýmis verkfæri og vélar til dæmis steypuhrærivél, hjólbörur, múrskeið, hallamál og brotvélar, auk hlífðarfatnaðar.

Náms- og starfsráðgjöf

Náms- og starfsráðgjafar hjálpa til við upplýsingaleit og aðstoða að finna leiðir til að bæta færni í námi og efla í starfi.

Um er að ræða ráðgjafa símenntunarmiðstöðva, háskóla, á vegum fagráða eða sérfróða um raunfærnimat.

Ábendingar

Vefurinn í er sífelldri vinnslu við að bæta virkni og innihald. Allar ábendingar um úrbætur eru vel þegnar og við hlustum á allt sem notendur hafa að segja.

Umsjón: Fræðslumiðstöð atvinnulífsins

Umsjónarmaður: Arnar Þorsteinsson (arnar@frae.is)