Prentari

Prentarar starfa á öllum sviðum prentunar, kunna skil á heildarferli prentverks og geta unnið með öðrum þáttum þess, svo sem prentsmíð og bókbandi. Prentarar taka við verki á prentplötu, myndamóti eða í tölvutæku formi, stilla það ásamt litaáferð og pappír í prentvél, og prenta síðan. Prentun er löggilt iðngrein.

Vinnustaðir prentara eru:

  • almennar prentsmiðjur við prentun á bókum, auglýsingum og fleiru
  • blaðaprentsmiðjur við prentun á dagblöðum, bæklingum og tímaritum
  • umbúðaprentsmiðjur við prentun á umbúðum, vörumerkingum og merkimiðum
  • stafrænar prentstofur við fjölbreytileg verkefni í minni upplögum

Helstu verkefni:

  • taka við verklýsingu sem tilgreinir hvernig verk skuli unnið
  • tryggja prentgæði
  • stjórna prentvélbúnaði og tölvum og tækjum sem honum fylgir
  • umhirða prentvéla, þrif og stillingar

Prentarar vinna mikið í samstarfi við aðra svo sem prentsmiði, bókbindara, grafíska miðlara, hönnuði, teiknara og ljósmyndara.

Hvernig verð ég?

Prentun er kennd við Tækniskólann. Meðalnámstími er þrjú ár, samtals fjórar annir í skóla og 48 vikna starfsþjálfun.

Hæfnikröfur

Prentari þarf að þekkja vel þá verkferla sem notaðir eru innan prentiðnaðar. Í því felst að geta gert verklýsingar, keyrt út prentplötur og undirbúið gögn fyrir stafræna prentun, sinnt daglegri umhirðu véla og kunna á stönsun, fellingu, rifgötun, tölusetningu, upphleypingu og yfirborðsmeðferð við frágang prentverks.

Náms- og starfsráðgjöf

Náms- og starfsráðgjafar hjálpa til við upplýsingaleit og aðstoða að finna leiðir til að bæta færni í námi og efla í starfi.

Um er að ræða ráðgjafa símenntunarmiðstöðva, háskóla, á vegum fagráða eða sérfróða um raunfærnimat.

Ábendingar

Vefurinn í er sífelldri vinnslu við að bæta virkni og innihald. Allar ábendingar um úrbætur eru vel þegnar og við hlustum á allt sem notendur hafa að segja.

Umsjón: Fræðslumiðstöð atvinnulífsins

Umsjónarmaður: Arnar Þorsteinsson (arnar@frae.is)