Rafvirki

Rafvirkjar starfa við uppsetningu, viðgerðir og eftirlit með rafbúnaði. Unnið er á verkstæðum, í nýbyggingum, í farartækjum á sjó og landi, í orkufyrirtækjum, iðnfyrirtækjum og iðjuverum. Rafvirki þekkir vel til mismunandi raflagnaefnis og til hvers konar raftækja, rafvéla, iðntölvustýringa, stýribúnaðar og forritanlegra raflagnakerfa. Rafvirkjun er lögvernduð iðngrein.
 
Helstu verkefni:

  • setja upp, annast og viðhalda raflögnum og rafbúnaði
  • annast viðhald rafvéla og raftækja ásamt nýlögnum og rafkerfum farartækja
  • annast bilanaleit í rafbúnaði og rafleiðslum
  • setja upp og tengja rafbúnað í rafmagnstöflum og raflagnir við rafmagnstæki
  • ganga frá algengustu loftnets-, kall-, merkja- og aðvörunarkerfum
  • forrita og ganga frá raflagnakerfum og leiðbeina um notkun

 
Í starfi rafvirkja gætirðu til dæmis starfað við viðgerðaþjónustu á verkstæðum, við raflagnir í nýbyggingum, rafkerfi iðnfyrirtækja eða við ráðgjöf og þjónustu í raftækjaverslunum.

Hvernig verð ég?

Rafvirkjun er kennd við Tækniskólann, Fjölbrautaskólann í Breiðholti, Fjölbrautaskóla Suðurnesja, Fjölbrautaskóla Suðurlands, Fjölbrautaskóla Vesturlands, Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra, Verkmenntaskólann á Akureyri og Verkmenntaskóla Austurlands.

Meðalnámstími í rafvirkjun er fjögur ár með meðtalinni 24 eða 48 vikna starfsþjálfun. Grunnnám í rafiðnum er tveggja ára nám, í boði við fyrrnefnda skóla auk Framhaldsskólans í Vestmannaeyjum og Menntaskólans á Ísafirði.

Raunfærnimat hefur farið fram og/eða kann að vera í boði.

Hæfnikröfur

Rafvirki þarf að þekkja vel búnað raftækja, rafvéla og forritanlegra raflagnakerfa og geta annast uppsetningu þeirra og viðhald. Gott er að hafa grunnþekkingu á vél- og hugbúnaði tölvukerfa, þekkja til lýsingartækni og geta framkvæmt bilanaleit og viðgerðir í rafbúnaði.

Í starfi rafvirkja er mikilvægt að þekkja öryggisþætti í rafiðnaði, svo sem neyðarrofa, neyðarstopp og snertihættu og viðhafa viðeigandi varúðarráðstafanir. Rafvirkjar nota ýmis mælitæki við vinnuna sem og almenn og sérhæfð hand- og rafmagnsverkfæri.

Tengd störf og námsgreinar

Náms- og starfsráðgjöf

Náms- og starfsráðgjafar hjálpa til við upplýsingaleit og aðstoða að finna leiðir til að bæta færni í námi og efla í starfi.

Um er að ræða ráðgjafa símenntunarmiðstöðva, háskóla, á vegum fagráða eða sérfróða um raunfærnimat.

Ábendingar

Vefurinn í er sífelldri vinnslu við að bæta virkni og innihald. Allar ábendingar um úrbætur eru vel þegnar og við hlustum á allt sem notendur hafa að segja.

Umsjón: Fræðslumiðstöð atvinnulífsins

Umsjónarmaður: Arnar Þorsteinsson (arnar@frae.is)