Tannsmiður

Tannsmiður vinnur við að setja gervigóma, lausa tannhluta, brýr, krónur og tannplant í stað skemmdra og brottnuminna tanna. Alla jafna tekur tannlæknir fyrst mót af gómi og tönnum en tannsmiður smíðar síðan tennur og góma með hliðsjón af gifsmódeli. Tannsmiðir vinna ýmist með plast, málm eða postulín. Tannsmiðir eru löggilt heilbrigðisstétt.

Helstu verkefni:

  • búa til afsteypu af tannstæði og móta og steypa tanngervi
  • fullvinna með því að fræsa, slípa og fínpússa
  • smíða lausa heilgóma eða gómhluta í stað tanna sem fallið hafa brott
  • smíða stakar krónur, fyllingar og brýr
  • smíða búnað til tannréttinga svo sem góma og plastskinnur

Tannsmiður getur sérhæft sig í ákveðnum viðfangsefnum en er oftast í samstarfi við tannlækni og aðstoðar til dæmis við að taka mát og máta tanngervi í viðskiptavini. Í starfinu eru notuð ýmis tæki og verkfæri svo sem slípitæki, bithermir, brennsluofnar, hnífar, tangir og hamrar.

Hvernig verð ég?

Nám í tannsmíði er þriggja ára háskólanám til BS – prófs við Tannlæknadeild Háskóla Íslands.

 

Hæfnikröfur

Tannsmiðir fá starfsleyfi frá landlækni og þurfa að hafa lokið BS - námi í tannsmíði. Viðbótarkröfur eru fyrir starfsleyfi sem klínískur tannsmiður. Tannsmiður þarf að þekkja vel faglegar takmarkanir og virða þagnarskyldu þegar við á.

Nánari upplýsingar

Náms- og starfsráðgjöf

Náms- og starfsráðgjafar hjálpa til við upplýsingaleit og aðstoða að finna leiðir til að bæta færni í námi og efla í starfi.

Um er að ræða ráðgjafa símenntunarmiðstöðva, háskóla, á vegum fagráða eða sérfróða um raunfærnimat.

Ábendingar

Vefurinn í er sífelldri vinnslu við að bæta virkni og innihald. Allar ábendingar um úrbætur eru vel þegnar og við hlustum á allt sem notendur hafa að segja.

Umsjón: Fræðslumiðstöð atvinnulífsins

Umsjónarmaður: Arnar Þorsteinsson (arnar@frae.is)