Úrsmiður

Úrsmiður annast viðgerðir, viðhald og hreinsanir á úrum og klukkum. Úrsmiðir endurnýja eða smíða varahluti í gömul úr og klukkur, fóðra upp vegna slits, skipta um fjaðrir og skeyta saman ef þarf. Úrsmiðir veita einnig ráð við val á úrum og klukkum. Úrsmíði er löggilt iðngrein.

Helstu verkefni:

  • hanna, smíða og gera við úr og klukkur
  • hreinsa og stilla gagnverk
  • grafa letur, skipta um gler, laga kassa og armbönd
  • gera upp gömul úr og klukkur
  • þróa, hanna og smíða úr út frá eigin hugmyndum og annarra
  • selja úr, klukkur og fylgihluti og veita ráðgjöf til viðskiptavina

Úrsmiðir starfa á úrsmíðaverkstæðum og í sérverslunum.

Hvernig verð ég?

Nám í úrsmíði tekur fjögur ár. Nemar geta farið á iðnsamningi hjá úrsmíðameistara hérlendis en þurfa að sækja námið sjálft í úrsmíðaskóla erlendis. Flestir íslenskir úrsmiðir hafa sótt nám sitt til Danmerkur.

Í námi úrsmiða er áhersla lögð á málmsmíði til að smíða verkfæri og varahluti, viðgerðir á úrum og klukkum, fagteikningu, rafmagnsfræði, sölutækni, gluggaútstillingu og bókfærslu.

Hæfnikröfur

Í starfi úrsmiðs er góð sjón mjög æskileg ásamt nákvæmni í vinnubrögðum enda er oft unnið með mjög smáa hluti. Gott er að hafa innsýn í úr og klukkur, gangverk og hluti úr gulli, silfri eða öðrum málmum. Sem úrsmiður notarðu ýmis fíngerð tæki og verkfæri við vinnuna, svo sem fínar tangir úr segulfríu stáli, stækkunargler, hárfín skrúfjárn, rennibekk, stillitæki, fjölsviðsmæli, lóðbolta og glerpressu.

Nánari upplýsingar

Náms- og starfsráðgjöf

Náms- og starfsráðgjafar hjálpa til við upplýsingaleit og aðstoða að finna leiðir til að bæta færni í námi og efla í starfi.

Um er að ræða ráðgjafa símenntunarmiðstöðva, háskóla, á vegum fagráða eða sérfróða um raunfærnimat.

Ábendingar

Vefurinn í er sífelldri vinnslu við að bæta virkni og innihald. Allar ábendingar um úrbætur eru vel þegnar og við hlustum á allt sem notendur hafa að segja.

Umsjón: Fræðslumiðstöð atvinnulífsins

Umsjónarmaður: Arnar Þorsteinsson (arnar@frae.is)