Viðskiptafræðingur

Flestir viðskiptafræðingar vinna sérfræði- eða stjórnendastörf sem tengjast rekstri fyrirtækja og stofnana. Störf viðskiptafræðinga geta snúið að flestu því sem að gagni getur komið í viðskiptum og má finna á flestum sviðum atvinnulífsins; við stofnun og rekstur fyrirtækja, fjármál, stefnumótun, sölu- og markaðsmál, framleiðslu og reikningshald. Viðskiptafræðingur er lögverndað starfsheiti.

Helstu verkefni:

  • rannsaka, greina og veita ráð um viðfangsefni á sviði viðskipta
  • skipuleggja, fjármagna og kynna nýjar vörur og þjónustu
  • sinna almannatengslum og upplýsingamiðlun
  • kaupa, selja og veita ráðgjöf um verðbréf og erlenda gjaldmiðla
  • gera úttekt á markaðsþróun fyrir viðskipti og fjárfestingar
  • veita ráðgjöf um lánakjör og lánaskilyrði
  • afla, greina og veita upplýsingar um fjármálamarkaðinn

Í starfi sem viðskiptafræðingur gætirðu hvort tveggja unnið innan einkageirans sem og hjá hinu opinbera.

Hvernig verð ég?

Viðskiptafræði er þriggja ára háskólanám sem lýkur með BS gráðu. Hún er kennd í Háskóla Íslands, Háskólanum í Reykjavík, Háskólanum á Akureyri og Háskólanum á Bifröst. Diplóma-, meistara- og doktorsnám er einnig í boði.

Hæfnikröfur

Viðskiptafræðingar þurfa að kunna helstu kenningar og hugtök greinarinnar og þekkja undirstöðuatriði leitar- og upplýsingatækni. Gagnrýni og sjálfstæði í hugsun og vinnubrögðum eru góðir kostir í starfinu ásamt því að geta unnið skipulega og samkvæmt gefinni áætlun. Mikilvægt er að geta leitað eftir upplýsingum, greint þær og metið áreiðanleika þeirra og notkunargildi.

Tengd störf og námsgreinar

Náms- og starfsráðgjöf

Náms- og starfsráðgjafar hjálpa til við upplýsingaleit og aðstoða að finna leiðir til að bæta færni í námi og efla í starfi.

Um er að ræða ráðgjafa símenntunarmiðstöðva, háskóla, á vegum fagráða eða sérfróða um raunfærnimat.

Ábendingar

Vefurinn í er sífelldri vinnslu við að bæta virkni og innihald. Allar ábendingar um úrbætur eru vel þegnar og við hlustum á allt sem notendur hafa að segja.

Umsjón: Fræðslumiðstöð atvinnulífsins

Umsjónarmaður: Arnar Þorsteinsson (arnar@frae.is)