Skrúðgarðyrkja er starfstengt nám á framhaldsskólastigi. Í náminu felst að auka færni og þekkingu er viðkemur nýbyggingu, viðhaldi og endurgerð lóða. Grunnfög í skrúðgarðyrkju eru meðal annars grasafræði, jarðvegsfræði, plöntuþekking á trjám, runnum og garðablómum auk rekstrar- og markaðsfræði. Einnig er farið í sérfög svo sem skrúðgarðabyggingafræði, skrúðgarðateikningu, umhirðu gróðursvæða og margt fleira.
Skrúðgarðyrkja er löggilt iðngrein. Meðalnámstími er þrjú ár að meðtalinni 60 vikna starfsþjálfun. Hugsanlegt er að fá færni sem aflað er á vinnumarkaði metna.