Störf áhrifavalda snúnast um markaðssetningu fyrir hönd ýmissa auglýsenda. Starfsheitið er nýlegt og er haft um þau sem fá greitt fyrir að vekja athygli á ákveðinni vöru, fyrirtækjum eða þjónustu fyrir milligöngu samfélagsmiðla.
Um getur verið að ræða markaðssetningu fyrir mismunandi auglýsendur í atvinnugreinum sem gjarnan tengjast tísku, lífsstíl eða ferðalögum. Áhrifavaldar eru eins konar milliliður á milli auglýsenda og þeirra sem hugmyndin er að ná til.
Áhrifavaldar safna gjarna til sín töluverðum fjölda fylgjenda í gegnum bloggsíður, YouTube eða miðla á borð við Facebook, Instagram og TikTok. Í störfum sínum þurfa áhrifavaldar að fylgja reglum Neytendastofu um auðþekkjanlegar auglýsingar.
Áhrifavaldar starfa ekki beint hjá einhverjum einum heldur vinna sjálfstætt, oft í gegnum tímabundna samninga við nokkur mismunandi fyrirtæki á sama tíma eða í tengslum við einstaka vörumerki.