Atvinnukafarar sinna sínum verkefnum undir vatnsyfirborði en verkefnin geta verið af ýmsum toga og er oft um einhvers konar sérhæfingu að ræða.
Atvinnuköfurum er gjarnan skipt niður í þrjá flokka:
- Iðnaðar-atvinnukafara sem starfa einkum við viðgerðir og verðmætabjörgun.
- Starfstengda kafara þar sem köfun er hluti af starfstengdri þjálfun til dæmis slökkviliðsmenn, lögregla og rannsóknarkafarar.
- Atvinnu-sportkafara sem starfa einkum við að kenna áhugafólki sportköfun og leiðsegja ferðafólki neðansjávar.
Hluti verkefna kafara á sér stað á þurru landi við undirbúning köfunar og til öryggis fyrir þá sem eru að vinna neðansjávar.
Störfum atvinnukafara fylgja oft ferðalög og geta verkefnin verið fjölbreytt, hvort tveggja innan lands sem utan. Starfsheitið er lögvarið á Íslandi og því getur enginn annar en sá sem hefur tilskilin réttindi kallað sig atvinnukafara.
Skortur er á íslenskum atvinnuköfurum með F og D réttindi, til dæmis í tengslum við fiskeldi í sjókvíum og hjá ferðaþjónustufyrirtækjum sem bjóða upp á köfunar- og snorkel ferðir.