Markmið sjúkraþjálfunar er að efla og viðhalda heilsu, færni og starfshæfni og stuðla þannig að virkri þátttöku og bættum lífsgæðum fólks á öllum æviskeiðum. Starfið miðar að því að bæta hreyfigetu, greina orsakir hreyfitruflana og færniskerðinga og veita meðferð sem byggir á greiningunni. Auk þess fást sjúkraþjálfarar við að fyrirbyggja og/eða draga úr afleiðingum áverka, álagseinkenna, sjúkdóma, öldrunar og lífsstíls sem geta haft áhrif á hreyfigetu og þar með á lífsgæði einstaklinga. Sjúkraþjálfarar eru löggild heilbrigðisstétt.
Sjúkraþjálfarar starfa jafnt á heilbrigðisstofnunum sem á einkareknum sjúkraþjálfunarstofum. Starfsvettvangur er meðal annars sjúkrahús, endurhæfingarstofnanir, öldrunarstofnanir og líkamsræktarstöðvar. Einnig starfa sjúkraþjálfarar hjá íþróttafélögum, við kennslu og rannsóknir, vinnuvernd og ráðgjöf, svo sem á sviði forvarna og heilsueflingar.