Verkfræði er nám á háskólastigi þar sem áhersla er á þjálfun í beitingu agaðra vinnubragða til að greina fjölbreytt og flókin viðfangsefni og þróa lausnir sem byggja á stærðfræði- og raunvísindaþekkingu.
Grunnnámi lýkur með BS eða BSc prófi. Námstími er þrjú ár.
Undirgreinar sem í boði eru til BS/BSc-prófs: Efnaverkfræði, fjármálaverkfræði, hátækniverkfræði, heilbrigðisverkfræði, hugbúnaðarverkfræði, iðnaðarverkfræði, rafmagns- og tölvuverkfræði, rekstrarverkfræði, umhverfis- og byggingarverkfræði og vélaverkfræði.
Kröfur
Inntökuskilyrði eru stúdentspróf eða sambærilegt nám. Mælt er með að umsækjendur hafi lokið ákveðnum einingafjölda í stærðfræði og raungreinum.
Námið er lánshæft til framfærslu og skólagjalda hjá Menntasjóði námsmanna. Fræðslusjóðir stéttarfélaga veita oft styrki til náms. Fáðu frekari upplýsingar hjá þínu félagi.
Námsskipulag
Áherslumunur er á námsskipulagi í verkfræði á milli skóla, deilda og sviða og best að kynna sér það á heimasvæðum brautanna.
Kennsla
Verkfræði hefur verið kennd við tvo íslenska háskóla; Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík. Í HR er um að ræða nokkrar mismunandi námslínur bæði til BSc gráðu og í meistaranámi.
Á Verkfræði- og náttúruvísindasviði HÍ eru þrenns konar verkfræðideildir; rafmagns- og tölvuverkfræði, umhverfis- og byggingarverkfræði og iðnaðar- og vélaverkfræði sem allar bjóða fjölbreytt nám hvort tveggja á BS stigi og til meistaragráðu.
Að loknu námi
Að lokinu fimm ára meistaranámi er hægt að öðlast starfsréttindi sem verkfræðingur. Starfsvettvangur verkfræðinga getur verið afar fjölbreyttur enda sérsviðin mörg. Verkefnastjórnun, hönnun og greiningarvinna er gjarnan stór þáttur starfsins til dæmis í fyrirtækjum sem tengjast framleiðslu, hugbúnaði, fjármálum, orkumálum eða ráðgjöf.
Tengt nám