Innanhúsarkitektar vinna að skapandi verkefnum sem tengjast nýtingu húsnæðis og innanhúss gæðum. Starfið er þríþætt; hugmyndavinna og frumdrög, teikningar og verklýsingar og að lokum umsjón og úttekt á því verkefni sem fyrir liggur hverju sinni. Innanhúsarkitekt er löggilt starfsheiti.
Í starfi sem innanhúsarkitekt gætirðu unnið við hönnun á einkaheimilum, í búðum, á hótelum, veitingastöðum, skólum, spítölum eða verksmiðjum.
Helstu verkefni
- veita þjónustu og ráðgjöf sem tengist skipulagi innanhúss
- gera úttekt með tilliti til mögulegs skipulags, innviða og innréttinga
- gerð áætlana og tilboða
- kynna sér framboð á byggingar- og húsgagnamarkaði
Hæfnikröfur
Innanhúsarkitektar þurfa hvort tveggja að geta hugað að listrænni hlið og útliti hönnunar en einnig því sem snýr að hagkvæmni og tæknilegri þáttum. Mikilvægt er að hafa hæfileika í teikningu ásamt tilfinningu fyrir litum, stíl og hlutföllum. Þá eru eiginleikar á borð við skipulagshæfni og að geta komið hugmyndum sínum vel frá sér æskilegir í starfi innanhúsarkitekts.
Félag húsgagna- og innanhúsarkitekta
Námið
Innanhúsarkitektúr er alla jafna um fimm ára nám á háskólastigi til löggildingar í faginu.
Listaháskóli Íslands býður upp á þriggja ára BA-nám í hönnun og arkitektúr auk þess sem listnámsbrautir eru við nokkra framhaldsskóla s.s. hönnunar- og nýsköpunarbraut Tækniskólans.
Tengd störf