Kælitæknar vinna við smíðar, uppsetningu og rekstur kælikerfa í frystihúsum, verslunum, skipum, gámum og flutningatækjum. Í starfinu felst að annast viðhald, viðgerðir og þjónustu kerfa, skrá ástand kælikerfa og tryggja sem öruggastan og hagkvæmastan rekstur þeirra. Kæli- og frystivélavirkjun er löggild iðngrein.

Í starfi sem kælitæknir gætirðu starfað hjá fyrirtækjum sem sérhæfa sig í kæli- og frystivélaþjónustu, hjá þjónustufyrirtækjum eða fyrirtækjum sem framleiða matvæli og drykkjarvörur.

Helstu verkefni

- smíða og setja upp kælikerfi
- tengja og stilla stjórnbúnað
- forrita og prófa iðntölvur
- þjónusta og reka kælikerfi

Hæfnikröfur

Kælitæknir þarf að geta lesið smíðateikningar og dregið upp teikningar af kæli- og frystikerfum. Einnig er mikilvægt að þekkja undirstöðuatriði rafmagnsfræði, varmastreymi, kælihringrása og áhrif kælingar og frystingar á matvæli. Í starfinu eru notuð handverkfæri og málmsmíðavélar og mikilvægt að hafa vald á málmsuðu, lóðningu, silfurkveikingu og slaglóðun.

Námið

Kælitækni er gjarnan kennd á námskeiðum í tengslum við starfsumhverfið í faginu en er einnig hluti af námi í véltækni.

Ekki fyrir þig?

Skoðaðu aðra valmöguleika