Veiðarfæratæknar gera við veiðarfæri auk þess að koma að hönnun þeirra og framleiðslu. Þeir geta, til að mynda, hannað og sett upp netabúnað eldiskvía fyrir strandeldis- og landstöðvar. Veiðarfæratækni, sem áður kallaðist netagerð, er löggilt iðngrein.

Sem veiðarfæratæknir gætirðu starfað í netagerð, á veiðarfæraverkstæði eða í öðrum fyrirtækjum sem sérhæfa sig í búnaði fyrir fiskiðnað.

Helstu verkefni

- gera líkan af veiðarfærum
- teikna veiðarfæri og eldiskvíar
- sauma og leysa saman einstaka netahluta veiðarfæra
- útbúa fótreipi, festa flot og þyngja veiðarfæri
- mæla veiðarfæri með tilheyrandi mælitækjum
- meta ástand veiðarfæra og álykta um viðgerðar- og endurnýjunarþörf

Hæfnikröfur

Veiðarfæratæknar þurfa að þekkja til gildandi laga og reglugerða um lágmarksmöskvastærðir, umbúnað veiðarfæra og öryggismál í faginu. Einnig er mikilvægt að kunna skil á:

- framleiðsluaðferðum við gerð veiðarfæra sem notuð eru við Ísland
- lögun veiðarfæra og efnum til veiðarfæragerðar
- flokkun og þróun veiðarfæra
- hegðun nytjafiska og viðbrögð þeirra við veiðarfærum
- takmörkunum á heimildum til notkunar veiðarfæra við landið

 
Í starfi veiðarfæratæknis þarf einnig að þekkja skaða sem veiðarfæri í sjó geta valdið og taka tillit til þess við hönnun og framleiðslu. Í starfinu er unnið með net, kaðla, víra, lása, keðjur, bobbinga og blý ásamt ýmis konar handverkfærum.

Félag vélstjóra og málmtæknimanna

Námið

Veiðarfæratækni er kennd í Fisktækniskólanum. Meðalnámstími er þrjú ár að meðtalinni starfsþjálfun.

Raunfærnimat hefur farið fram og/eða kann að vera í boði.

Ekki fyrir þig?

Skoðaðu aðra valmöguleika