Kvikari eða hreyfihönnuður (e. animator) vinnur við að blása lífi í dauða hluti og gera þá kvika, hvort sem það eru teiknaðir hlutir, tölvugerðir eða hlutir sem eru látnir hreyfast ramma fyrir ramma. Kvikari getur látið hluti, persónur og aðrar fígúrur hugsa, anda og hlæja og er hálfpartinn leikari og grafískur hönnuður í senn.

Margir kvikarar starfa í fyrirtækjum sem tengjast sjónvarpi, kvikmyndum, auglýsingagerð eða tölvuleikjum, oft í samstarfi við handritshöfunda, hönnuði og leikstjóra en einnig eru margir sjálfstætt starfandi.

Í dag er algengast að unnið sé í tölvu, bæði í þrívíðum fleti og tvívíðum. Og þá bæði með heildstæðar myndir eða brot úr myndum eins og hreyfingar í auglýsingum eða kvikmyndum, eða bakgrunna. Starfið getur einnig tengst hefðbundnari teiknimyndum eins og handteiknuðum myndum eða myndum þar sem tilbúnar fígúrur eru myndaðar ramma fyrir ramma til að skapa hreyfingu (stillimyndagerð).

Helstu verkefni

- útbúa skissur af persónum sem munu tjá það sem lýst er í handriti
- móta persónurnar, ákveða útlit þeirra og framvindu sögunnar
- skipuleggja hverja senu, svo sem varðandi umhverfi og bakgrunn
- fullgera teikningarnar og gæða persónurnar lífi
- lokafrágangur; litvinnsla, tónlist og hljóð

Hæfnikröfur

Kvikarar og hreyfihönnuðir þurfa að vera skapandi og hafa áhuga á kvikmyndum, leikrænum tilburðum og framsetningu. Hreyfimyndagerð er tímafrekt ferli og er þolinmæði þess vegna mikilvægur eiginleiki ásamt því að eiga gott með að vinna með öðrum.

Þar sem tækninni fleygir ört fram er mikilvægt að hafa áhuga á stafrænum lausnum, vera opin fyrir nýjungum og því sem efst er á baugi í faginu, til dæmis hvað varðar þróun hugbúnaðar.

Þá er afar heppilegt að búa yfir góðri færni í teikningu og tilfinningu fyrir formi og litum. Annars er tæknin á bak við störf kvikara í stöðugri þróun og nauðsynlegt að læra sífellt eitthvað nýtt.

Að mestu byggt á Utdanning.no - Animator og UG.dk – Animator.

Námið

Ýmiss konar nám er í boði tengt tölvum og tækni, meðal annars stafræn hönnun í Tækniskólanum en hreyfimyndagerð má einnig læra í skólum víða erlendis.

Ekki fyrir þig?

Skoðaðu aðra valmöguleika