Skrúðgarðyrkja er starfstengt nám á framhaldsskólastigi. Í náminu felst að auka færni og þekkingu er viðkemur nýbyggingu, viðhaldi og endurgerð lóða. Grunnfög í skrúðgarðyrkju eru meðal annars grasafræði, jarðvegsfræði, plöntuþekking á trjám, runnum og garðablómum auk rekstrar- og markaðsfræði. Einnig er farið í sérfög svo sem skrúðgarðabyggingafræði, skrúðgarðateikningu, umhirðu gróðursvæða og margt fleira.
Skrúðgarðyrkja er löggilt iðngrein. Meðalnámstími er þrjú ár að meðtalinni starfsþjálfun.
Hugsanlegt er að fá færni sem aflað er á vinnumarkaði metna.
Kröfur
Æskilegt er að umsækjandi hafi lokið 12 vikna reynslutíma á námssamningi hjá skrúðgarðyrkjumeistara sem hluta af verknámi áður en bóknám hefst en slíkt er þó metið hverju sinni. Þá þarf að hafa lokið tveimur til fjórum önnum í framhaldsskóla, þar af ákveðnum einingum í vissum fjölda greina. Heimilt er að meta reynslu úr atvinnulífi til hluta námsins og er það skoðað hverju sinni.
Námið hefur verið lánshæft hjá Menntasjóði námsmanna. Fag- og stéttarfélög veita oft styrki til náms. Fáðu frekari upplýsingar hjá þínu félagi.
Námsskipulag
Nám í skrúðgarðyrkju skiptist í grunngreinar garðyrkju, sérgreinar skrúðgarðyrkju og starfsþjálfun. Starfsþjálfun fer fram á verknámsstað undir handleiðslu meistara sem nemandi hefur valið sér og verið samþykkt áður en nám hefst.
Kennsla
Skrúðgarðyrkjunám er á framhaldsskólastigi og kennt á vegum Fjölbrautaskóla Suðurlands í húsnæði Garðyrkjuskólans að Reykjum í Ölfusi.
Að loknu námi
Að námi og starfsþjálfun lokinni er möguleiki á að fara í sveinspróf sem veitir rétt til starfa í greininni ásamt inngöngu í nám til meistaraprófs. Einnig er hægt að ljúka viðbótarnámi til stúdentsprófs. Framhaldsnám í skrúðgarðyrkju svo sem diploma eða BS er hægt að sækja víða á Norðurlöndunum.
Tengt nám