Áfengis- og vímuvarnarráðgjafar styðja þá sem þjást af alkóhólisma, eiturlyfjafíkn, átröskunum eða öðrum hegðunarvandamálum og veita þeim viðeigandi meðferð. Markmið vinnunnar er að hjálpa fólki við að aðlagast nýjum lifnaðarháttum og verða sjálfstæðir, fullgildir þátttakendur í samfélaginu. Áfengis- og vímuvarnarráðgjafar eru löggilt heilbrigðisstétt.
Áfengis- og vímuvarnarráðgjafar starfa víða, meðal annars á meðferðarstofnunum, geðheilbrigðisstofnunum, heilsugæslustöðvum og í fangelsum, gjarnan í samstarfi við lækna, hjúkrunarfræðinga og félagsráðgjafa.
Helstu verkefni
- einstaklings- og hópráðgjöf
- mat á andlegu og líkamlegu ástandi
- þróa meðferð sem byggist á rannsóknum og reynslu
- endurskoða og meta framfarir ráðþega
- skipulagning eftirmeðferðar fyrir útskrifaða ráðþega
Hæfnikröfur
Áfengis- og vímuvarnarráðgjafar fá starfsleyfi frá landlækni og þurfa að geta borið ábyrgð á störfum sínum við ráðgjöf og meðferð. Samskiptahæfni, samúð og virk hlustun eru mikilvægir kostir í starfinu auk þess að eiga gott með að setja sig í spor annarra. Skilningur, þekking og reynsla af fíknisjúkdómum er æskileg. Starfið getur verið krefjandi og mikilvægt að þekkja siðareglur stéttarinnar, virða faglegar takmarkanir og þagnarskyldu þegar við á.
Félag áfengis- og vímuvarnarráðgjafa
Námið
Til að fá starfsleyfi frá landlækni sem áfengis- og vímuvarnarráðgjafi þarf að:
- hafa starfað í þrjú ár við áfengis- og vímuvarnarráðgjöf
- hafa lokið 300 klukkustunda námi í greininni
- hafa fengið 225 klukkustunda leiðsögn og handleiðslu
Tengd störf