Veggfóðrarar og dúkarar leggja á gólf, stiga og veggi ýmis konar gólfefni svo sem dúka, plötur og teppi. Einnig gera veggfóðrarar við og endurnýja gólf-, vegg- og loftefni. Vinnuumhverfi veggfóðrara tengist oft nýbyggingum, viðhaldi og endurbyggingu húsa eða samgöngu- og orkumannvirkjum. Veggfóðrun er löggilt iðngrein.
Veggfóðrarar og dúkarar starfa í fyrirtækjum sem sinna veggfóðrun og dúkalögn eða afgreiða og veita ráðgjöf í sérverslunum. Sumir dúklagningamenn sérhæfa sig í lagningu gerviefna á íþróttavelli, íþróttahús, sundlaugar og þök.
Helstu verkefni
- veggfóðra og leggja teppi, dúk og plötur á gólf og stiga
- leggja vegg- og loftefni
- búa til skrautborða eða mynd og fella í gólfdúk
- leggja sérhæfða dúka, striga, plötur og spón, inni og úti
- leggja gólf- og veggefni í votrými til dæmis baðherbergi
- undirvinna og setja undirlag
- leggja mat á viðhald og gera við skemmdir
- leiðbeina um viðhald og efnisval
Hæfnikröfur
Veggfóðrari þarf að hafa þekkingu og færni til að undirbúa fleti inni og úti fyrir lagningu gólf- og veggefnis auk þess að geta gengið frá listum og gert við ef þörf krefur. Mikilvægt er að þekkja helstu eiginleika og verkan efna sem notuð eru við veggfóðrun og dúklagnir.
Í starfinu er einnig mikilvægt að þekkja og geta beitt helstu vélum og verkfærum svo sem mælitækjum, geta rakamælt gólf, flotað og sett undirlag. Notast er við slípivél, suðuvél, fræsara, límkúst, spartlspaða, handrúllu, dúkhníf, málband og sköfur, auk algengustu handverkfæra. Þá er gott að þekkja til regla um hljóðvist, verndun og friðun húsa, varmaeinangrun og eld- og rakavarnir.
Sem veggfóðrari eða dúkari vinnurðu með flest það sem límt er inn í híbýli manna, svo sem veggfóður, skreytiborða og klæðningar í loft og á veggi.
Félag dúklagninga og veggfóðrarameistara
Námið
Veggfóðrun og dúkalögn er kennd við Tækniskólann. Meðalnámstími er fjögur ár að meðtöldu grunnnámi bygginga- og mannvirkjagreina; þrjár annir í skóla auk starfsþjálfunar.
Tengd störf