Námi í fjallamennsku á framhaldsskólastigi er ætlað að auka hæfni nemenda til að ferðast um fjalllendi og óbyggðir á Íslandi, taka fyrsta skrefið sem hægt er að byggja ofan á með frekara námi og þjálfun.

Áherslur í náminu tengjast þjálfun og skilningi á því hvað mestu máli skiptir til að útivist í óbyggðum sé bæði örugg og ánægjuleg. Einnig góðri umgengni og virðingu fyrir náttúrunni í skipulagi og framkvæmd fjallaferða. Kennslan fer mikið til fram úti í náttúrunni þar sem nemendur takast á við raunverulegar aðstæður. Fyrir utan bóklegt nám eru viðfangsefni sérgreina; verklegt útinám, ferðir á eigin vegum, skyndihjálp, hópstjórnun og vettvangskynningar.

Um er að ræða tveggja ára nám sem lýkur með framhaldsskólaprófi.

Kröfur

Umsækjendur þurfa að hafa lokið skyldunámi í samræmi við Aðalnámskrá grunnskóla. Fræðslusjóðir stéttarfélaga veita oft styrki til náms. Fáðu frekari upplýsingar hjá þínu félagi.

Námsskipulag

Nám á fjallamennskubraut skiptist í almennar kjarnagreinar og sérgreinar sem einnig geta verið hluti af námi til stúdentsprófs. Í náminu skipuleggja nemendur stuttar ferðir sem lengjast, og taka til fleiri þátta, eftir því sem á líður. Í lokaferðinni eru allir helstu þættir sérgreina námsins þjálfaðir og frammistaða nemenda á vettvangi metin.
Starfsnámshluti fjallanámsins felst í kynningar- og vettvangsheimsóknum þar sem nemendur kynnast umfangi og fjölbreytileika starfa í tengslum við ferða- og fjallamennsku og fá innsýn í hvernig unnt er að skipuleggja ferðir með aðstoð aðila í nærumhverfi.

Kennsla

Fjallamennskubraut hefur verið í boði við Framhaldsskólann í Austur-Skaftafellssýslu.

Að loknu námi

Námið veitir ekki formleg réttindi en á að gera nemendur færari við að skipuleggja ferðir um fjalllendi og óbyggðir og veita ákveðna grunnþjálfun í slíkum ferðum.

Ekki þinn tebolli?

Skoðaðu aðra valmöguleika