Fiskeldisfræðingur aflar klakfisks, elur hann við tilbúin skilyrði í fiskeldisstöðvum, slátrar og selur til verslana og fyrirtækja.

Í starfi sem fiskeldisfræðingur ertu í samstarfi við aðra sem greininni tengjast svo sem dýralækna, fisksjúkdómafræðinga, fóðurframleiðendur, söluaðila og starfsfólk á rannsóknarstofum.

Helstu verkefni

- vigta og mæla fisk og flokka eftir stærð
- skrá fóðurnotkun og niðurstöður úr mælingum
- halda yfirlit yfir dauðan fisk
- hreinsa og stilla hita, súrefni, seltu og straumhraða í hverju keri
- nota fyrirbyggjandi aðgerðir til að koma í veg fyrir sýkingar

Hæfnikröfur

Fiskeldisfræðingur þarf að hafa yfirgripsmikla þekkingu á sviði fiskeldis, vatnalíffræði og fiskalíffræði. Æskilegt er að geta hvort tveggja unnið sjálfstætt og sem hluti af teymi. Við fiskeldi er notast við ýmsa tækni og áhöld sem gott er að hafa þekkingu á svo sem fóðurskóflu, sjálfvirka fóðrara, háfa, fiskdælu, lyftara og mælitæki ýmis konar.

Námið

Fiskeldisfræði er eins árs nám við Háskólann á Hólum og lýkur með diplóma gráðu. Námið er hvort tveggja bóklegt og verklegt og er formlegt verknám alls 12 vikur.

Þá er námsbraut í fiskeldi á framhaldsskólastigi í boði við Verkmenntaskóla Austurlands auk námsframboðs Fisktækniskólans.

Ekki fyrir þig?

Skoðaðu aðra valmöguleika