Almennir læknar sinna mjög fjölbreyttum störfum og halda meðal annars utan um flest það er tengist sjúkrahús- og heilsugæsluvinnu, frá innlögn til útskriftar. Í starfinu felast mikil samskipti við sjúklinga, aðstandendur og annað heilbrigðisstarfsfólk auk þess sem læknar sinna oft umfangsmiklum vísindastörfum og kennslu við háskóla. Læknar eru löggilt heilbrigðisstétt.

Í starfi sem almennur læknir gætirðu starfað á almennri deild eða rannsóknarstofu sjúkrastofnana, við heilsugæslustöð og/eða á eigin lækningastofu. Starfið felur í sér mikið samstarf við hjúkrunarfræðinga, sjúkraþjálfara, iðjuþjálfa, sálfræðinga, félagsráðgjafa, aðra lækna og sérfræðinga.

Helstu verkefni

- taka á móti sjúklingum og ræða atriði er varða heilsufar viðkomandi
- skrá sjúkrasögu sjúklings
- skoða sjúkling og ákveða hvort frekari rannsókna sé þörf
- veita læknishjálp og ávísa lyfjum ef þörf er á
- upplýsa sjúkling og aðstandendur um framgang meðferðar, ástand og horfur
- rannsóknir á eðli, orsökum og framvindu sjúkdóma
- ráðgjöf og fræðsla

Hæfnikröfur

Náin samskipti lækna við sjúklinga, aðstandendur og aðrar heilbrigðisstéttir gerir þeim nauðsynlegt að eiga gott með mannleg samskipti. Einnig er mikilvægt að búa yfir metnaði og þolinmæði auk þess sem góð tungumálakunnátta er nauðsynleg. Læknar sérhæfa sig gjarnan á sviðum á borð við lyf-, skurð-, heimilis-, barna-, svæfingar-, kven-, geð-, augn-, krabbameins- eða geislalækningum auk meina- eða veirufræði og starfa þá oftast eingöngu á sínu sérsviði.

Læknafélag Íslands

Námið

Grunnnám í læknisfræði er þriggja ára háskólanám til BS-gráðu sem ekki veitir starfsréttindi. Almennt lækningaleyfi og réttindi til að stunda lækningar á Íslandi fæst að loknu sex ára námi til embættisprófs og eins árs starfsnámi til viðbótar.

 Skipulag náms í læknisfræði.

Ekki fyrir þig?

Skoðaðu aðra valmöguleika