Lífeindafræðingar framkvæma rannsóknir á mælanlegum þáttum í líkama manna og dýra. Mældir eru þættir sem hafa áhrif á heilsufar lífvera svo sem erfðaþættir og efnaáhrif. Hvort tveggja er um að ræða þjónusturannsóknir sem gagnast við sjúkdómsgreiningar og meðferð sjúkdóma og vísindarannsóknir sem efla þekkingu á viðkomandi sviði. Lífeindafræðingar eru löggild heilbrigðisstétt.

Flestir lífeindafræðingar starfa á rannsóknastofum sjúkrahúsa. Auk þess starfa margir hjá fyrirtækjum í erfðagreiningu og lyfjaiðnaði, matvælaframleiðslu, iðnaði og stofnunum sem þjóna landbúnaði. Í starfinu er unnið með eindir, smáar og stórar; frumeindir, sameindir, erfðaefnisbúta, prótein, ensím, frumur, líffæri og líffærakerfi. Raunar allt frá frumeind upp í þá einingu lífs sem kallast maður.

Helstu verkefni

- umsjón með tækjum á rannsóknarstofum
- greining og vinnsla á niðurstöðum mælinga
- sýnataka og ráðgjöf um sýnatökur
- ráðgjöf um túlkun niðurstaðna og tengsl rannsókna
- þróun, mat og val á nýrri tækni, tækjum og aðferðum

Hæfnikröfur

Lífeindafræðingar fá starfsleyfi frá landlækni og er krafist BS-prófs í lífeindafræði auk eins árs diplómanáms að lágmarki. Lífeindafræðingur þarf að þekkja vel þau lög og reglugerðir sem gilda um heilbrigðisstarfsmenn og geta borið ábyrgð á rannsóknarstörfum í lífvísindum. Í starfi lífeindafræðings er mikilvægt að vera skipulagður, nákvæmur og athugull, þekkja siðareglur stéttarinnar, virða faglegar takmarkanir og þagnarskyldu þegar við á.

Félag lífeindafræðinga

Námið

Lífeindafræði er námsbraut við læknadeild Háskóla Íslands. Nám sem veitir starfsréttindi sem lífeindafræðingur tekur fjögur ár; 180 eininga BS-próf auk 60 eininga diplómanáms. Skilyrði fyrir sérfræðileyfi er að hafa lokið meistara- eða doktorsprófi auk starfsreynslu í viðkomandi fræðigrein.

Ekki fyrir þig?

Skoðaðu aðra valmöguleika