Ljósahönnuðir vinna við að hanna lýsingu á hvers kyns viðburðum, svo sem í leikhúsum, á tónleikastöðum eða í sjónvarpi, kvikmyndum og auglýsingagerð. Ljósahönnuðir ákveða til dæmis, í samstarfi við leikstjóra, hvernig stemningu kalla á fram á sviði og skipuleggja lýsingu í samræmi við það, oftast í samvinnu við ljósamenn sem „keyra“ viðburðinn.
Helstu verkefni
- hanna lýsingu sem hentar viðkomandi aðstæðum á sviði
- undirbúa skipulag lýsingar á sama tíma og verið er að æfa sýningu
- skipuleggja lýsingu inn í ákveðið rými með ljósaborði
- skipuleggja ljósabreytingar; raða kösturum í rétta stöðu og lit
- búa til grunnlýsingu og byggja ofan á hana til að ná æskilegri stemningu eða útliti
- búa til ljósabreytingar, setja inn í tölvu eða ljósaborð
- raða ljósabreytingunum í rétta röð í tölvu eða ljósaborð fyrir sýningu
Hæfnikröfur
Ljósahönnuðir þurfa að hafa nokkra þekkingu á rafmagni, listræna sýn og áhuga á þeirri tækni sem tengist ljósahönnun. Mikilvægt er að geta unnið af nákvæmni og þolinmæði í samstarfi við aðra, svo sem leikstjóra, leikmyndahönnuði og ljósamenn. Ljósahönnuðir vinna mikið með ljós, liti, kastara og tölvubúnað. Vinnan er oft í törnum sem tengjast undirbúningi tiltekins viðburðar.
RAFMENNT
Námið
Ekki er um að ræða sérstakt nám í ljósahönnun á Íslandi en starfstengd námskeið kunna að vera í boði. Erlendis má hins vegar finna nám fyrir ljósahönnuði. Einnig má benda á nám í rafvirkjun en grunn- og framhaldsnám í rafiðngreinum er að finna við marga framhaldsskóla.
Tengd störf