Ljósmæður starfa við meðgöngueftirlit, fæðingarhjálp, umönnun og foreldrafræðslu. Í starfinu felst fræðsla á meðgöngu, undirbúningur fyrir foreldrahlutverkið, heilbrigðisfræðsla ásamt umönnun nýbura og ungbarna.

Ljósmæður eru löggilt heilbrigðisstétt. Ljósmæður starfa víða, meðal annars í heimahúsum, á sjúkrahúsum og heilsugæslustöðvum.

Helstu verkefni

- fyrirbyggjandi aðgerðir og stuðningur við eðlilegt ferli fæðingar
- fylgjast með líðan konu á meðgöngutíma, í fæðingu og sængurlegu
- framkvæmd reglubundinnar mæðraskoðunar
- greining á frávikum hjá móður og barni og bráðahjálp
- heilbrigðisfræðsla og ráðgjöf

Hæfnikröfur

Ljósmæður fá starfsleyfi frá landlækni og þurfa að hafa lokið B.S.-gráðu í hjúkrunarfræði auk kandídatsnáms í ljósmóðurfræði. Viðbótarskilyrði eru fyrir sérfræðileyfi á klínískum sérsviðum.

Ljósmóðir þarf að þekkja vel þau lög og reglugerðir sem gilda um heilbrigðisstarfsmenn og geta borið ábyrgð á störfum sínum við forvarnir, ráðgjöf, ljósmóðurfræðilega greiningu og með­ferð. Í starfi ljósmóður er mikilvægt að þekkja siðareglur stéttarinnar, virða faglegar takmarkanir og þagnarskyldu þegar við á.

Ljósmæðrafélag Íslands

Ekki fyrir þig?

Skoðaðu aðra valmöguleika